Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að beina því til ríkisins að rýmka reglur svo það sé hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvernig það kýs að haga reglum um á hvaða stöðum sé leyfilegt að hafa dýr var samþykkt í borgarstjórn í dag.
Aðeins borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá.
Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi mælti fyrir um tillögunni. Í henni segir jafnframt að það sé réttlætismál að sveitarfélög hafi svigrúm gagnvart eigendum slíkra staða, svo sem kaffihúsa, veitingastaða, líkamsræktarstöðva, samkomuhúsa, að leyfa dýrahald ef þeir óska.
Tillagan í heild sinni:
Borgarstjórn samþykkir að beina þeim tilmælum til ríkisvaldsins að rýmka reglur um hollustuhætti og matvæli svo það sé hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvernig það kýs að haga reglum um á hvaða stöðum sé leyfilegt að hafa dýr, svo sem á kaffihúsum, veitingastöðum, líkamsræktarstöðvum, samkomuhúsum o.s.frv. Það er réttlætismál að sveitarfélög hafi svigrúm gagnvart eigendum slíkra staða að leyfa dýrahald ef þeir óska.