Óttast uppsagnir í öðru hverju fyrirtæki

Deila SGS og SA er í algjörum hnút.
Deila SGS og SA er í algjörum hnút. mbl.is/Eggert

Samtök atvinnulífsins segja að afleiðingarnar yrðu alvarlegar fyrir fyrirtæki og heimili landsins ef kröfur Starfsgreinasambands Íslands (SGS) um 50-70% almennar launahækkanir næstu þrjú árin nái fram að ganga. Þetta þýddi uppsagnir í öðru hverju fyrirtæki.

Fram kemur í tilkynningu frá SA, að ný könnun meðal aðildarfyrirtækja samtakanna sýni að meira en annað hvert fyrirtæki, eða 55,4% myndu neyðast til að bregðast við miklum launahækkunum með fækkun starfsfólks og verulegri hækkun á verði fyrir vörur og þjónustu.

„Flestir stjórnendur eða 43,5%,gera ráð fyrir að fækkun starfsfólks verði á bilinu 5-15%, 31% gera ráð fyrir að fækkun starfsfólks verði á bilinu 16-30%, 10% stjórnenda gera ráð fyrir að fækka fólki um 31-50% og 4,8% fyrirtækja gera ráð fyrir að hætta starfsemi verði kröfur SGS að veruleika. Aðeins 10% stjórnenda telja að fækkunin verði innan við 5%,“ segir í tilkynningunni.

Tekið er fram, að um netkönnun hafi verið að ræða meðal aðildarfyrirtækja SA dagana 12.-15. maí 2015 og var fjöldi svarenda 395. Outcome-kannanir sáu um framkvæmd könnunarinnar. 60% svarenda voru með rekstur á höfuðborgarsvæðinu en 40% á landsbyggðinni.

SA segir, að hjá fyrirtækjunum í könnuninni starfi 24 þúsund starfsmenn.

„Þegar mat stjórnenda fyrirtækjanna á þeirri fækkun starfsmanna sem muni hljótast af 50-70% launahækkun á þremur árum er vegið saman með starfsmannafjölda fyrirtækjanna fæst að starfsmönnum þessara fyrirtækja muni fækka um 14%, eða um 3.400. Sé sú niðurstaða yfirfærð á almenna vinnumarkaðinn í heild fæst að starfsmönnum gæti fækkað um 16.000,“ segir ennfremur.

Nánar hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka