VR hefur slitið viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Fundi deiluaðilanna hjá ríkissáttasemjara lauk síðdegis í dag.
Samningafundurinn hófst klukkan tvö í dag, en upp úr viðræðum slitnaði á sjötta tímanum, þar sem „VR er ekki tilbúið til viðræðna um hugmyndir SA að breytingum á vinnutímafyrirkomulagi,“ að því er segir í tilkynningu frá félaginu.
Nýr fundur hefur ekki verið boðaður í deilunni.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, sagði á heimasíðu félagsins í gær að VR hafi ítrekað reynt síðustu vikur að fá Samtök atvinnulífsins að samningsborðinu til að ræða kröfur félagsins um „réttmæta leiðréttingu“ launa félagsmanna til samræmis við það sem samið hafi verið um við aðra hópa undanfarin misseri. Þær tilraunir hafi verið árangurslausar.
Deilu VR og SA var vísað til ríkissáttasemjara um miðjan apríl, eftir árangurslausa samningafundi.
Félagsmenn VR samþykktu í dag verkfallsaðgerðir sem hefjast 28. maí næstkomandi, hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma.
Frétt mbl.is: Félagsmenn VR samþykktu verkfall