„Í hruninu var talað um forsendubrest þegar verðtryggðar skuldir heimilanna hækkuðu. Allir vita að miklar launahækkanir skapa verðbólgu sem hækkar verðtryggð lán. En núna, í þetta skiptið, er ekki hægt að tala um forsendubrest vegna þess að allir vita hvert við erum að stefna. Spurningin er frekar sú hvort einhver ætli að bæta tjónið.“
Þetta sagði Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbanka Íslands og fyrrverandi hagfræðingur og framkvæmdastjóri ASÍ, á borgarafundi um yfirstandandi kjaradeilur í Iðnó í dag.
Hópur fólks, sem tekið hefur sig saman undir kjörorðinu Aukum kaupmáttinn, stóð fyrir fundinum til að ræða meðal annars hvað deiluaðilar geti lært af sögunni.
Ari sagði að ef miðað væri við fortíðina, þá væri ekkert í efnahagslífi Íslendinga sem benti til annars en að miklar nafnlaunahækkanir sköpuðu verðbólgu - ekki neitt.
„Það eru gömul og ný sannindi að háar nafnlaunahækkanir skapa ekki mesta kaupmáttinn, heldur er það hæg þróun upp á við sem skilar jafnan mestum árangri. Það sannar okkar eigin reynsla og annarra. Gengisfelling fylgdi jafnan háum launahækkunum fyrr á árum en slíkt er ekki í myndinni nú. Núna koma áhrifin fram í verðhækkunum og mögulega minni vinnuaflsnotkun,“ benti Ari á.
Hann sagði það deginum ljósara að engin sátt væri fyrir hendi um þá tekjuskiptingu sem varð til eftir hrun. Lægri launin hefði síðan unnið hlutfallslega á miðað við þau hærri og þeir hærra launuðu vildu nú greinilega ná sömu stöðu aftur.
„Allt tal stjórnmálamanna um að sátt sé um að lægstu laun hækki meira en önnur passar því ekki,“ sagði Ari.
Hann nefndi að yfirstandandi kjaraviðræður hefðu nær eingöngu snúið að skiptingu tekna og samanburð við aðra, þar sem allir teldu sig eiga eitthvað inni gagnvart hinum. „Þetta er allt önnur nálgun en gilti í síðustu samningum þar sem unnið var að efnahagslegum stöðugleika og kaupmáttaraukningu. Nú er eins og það skipti ekki máli.“
Hann sagði að lítil umræða væri í samfélaginu í dag um hækkun skulda. „Það eru fáir sem tala um höfuðstólshækkun verðtryggðra lána sem yrði, ef þær kröfur sem talað er um næðu fram að ganga, svipað og í hruninu.“
Eins væri lítið rætt um greiðslubyrði óverðtryggðra lána, sem eru nú um þriðjungur af öllum íbúðalánum. Ari benti á að ef stýrivextir hækkuðu um 2%, sem væri alls ekki óraunhæft, þá myndi það þýða 25 þúsund króna viðbótargreiðslu á mánuði fyrir fimmtán milljóna króna óverðtryggt lán. „Og ef vaxtahækkunin er 3%, þá myndi það þýða 37 þúsund króna aukagreiðslu á mánuði. Það yrði ekki mikið eftir af launahækkununum þá,“ sagði Ari.
Og ef fimmtán milljóna króna lánið væri verðtryggt, þá myndi 8% verðbólga hafa það í för með sér að lánið hækkaði um 1,2 milljónir króna fyrsta árið og 1,3 milljónir á því næsta.
Frétt mbl.is: „Það er traustið sem vantar“