Þótt ljóst sé að háttsemi Bjarkar Þórarinsdóttur hafi ekki haft áhrif á þá lánveitingu sem hún er ákærð fyrir hefur sérstakur saksóknari ekki fallið frá ákæru á hendur henni og segir að háttsemi hennar geti flokkast sem tilraun til umboðssvika. Í málflutningi verjanda Bjarkar, Halldórs Jónssonar, í dag sagði hann að tilraun ákæruvaldsins til að halda sig við ákæruefnið, þrátt fyrir sannanir um sakleysi hennar væri ódýr.
Björk er ákærð fyrir aðild að lánveitingu til félagsins Holts investments, en það er eitt af þeim þremur félögum sem tengjast söluhlið stóra markaðsmisnotkunarmáls Kaupþings. Ákæruvaldið telur að um sýndarviðskipti og markaðsmisnotkun sé að ræða, þar sem bankinn veitti lán án fullnægjandi eða án trygginga með það fyrir augum að halda uppi eftirspurn og hækka verð bréfa bankans.
Björk var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans á þessum tíma og í lánanefnd samstæðu. Það merkilega í málinu er að útlán Holts og tengdra aðila var langt yfir heimild nefndarinnar, en eigandi Holts var fjárfestirinn Skúli Þorvaldsson. Í því ljósi er lánabeiðni í september árið 2008 tekin fyrir af lánanefndinni, en vísað beint áfram til æðstu lánanefndar bankans, lánanefnd stjórnar. Ekki er veitt nein heimild fyrir láninu á fundinum.
Þann 18. september sendir svo starfsmaður Kaupþings og viðskiptastjóri Holts, Rúnar Magni Jónsson, fyrirspurn á Björk og Bjarka Diego, fv. framkvæmdastjóra útlána hjá bankanum. Óskar hann þar eftir samþykki fyrir að fá að keyra lánið í gegn, þótt það hafi verið óbókað hjá lánanefnd stjórar og vísaði til pósts frá ritara nefndarinnar. Í yfirheyrslum, meðal annars yfir ritaranum, hefur komið fram að á þessum tíma hafi verið komið svokallað millifundarsamþykki fyrir láninu, en að aðeins hafi átt að skrá það formlega til bókar á fundi. Slíkt tíðkaðist í öðrum tilvikum og var viðurkennt innan bankans.
Þessum pósti svarar Bjarki mínútu seinna með orðunum „samþykkt,“ meðan Björk svaraði honum daginn eftir með orðunum „Samþykkt fyrir mitt leyti.“ Á þessum tíma hafði lánið verið keyrt í gegn og var fullklárað í dagsbyrjun þennan dag, áður en Björk svaraði póstinum. Póstinum sem Björk sendi á Rúnar var einnig svarað með sjálfvirkum pósti þar sem fram kom að Rúnar væri í fríi þennan dag og að pósturinn væri ekki áframsendur.
Til viðbótar við þetta segja bæði verjendur Bjarka og Bjarkar að samþykkið sem Rúnar óskaði eftir og þau hafi veitt hafi aðeins þýtt að það mætti afgreiða lánið ef millifundarsamþykki lægi fyrir. Þau væru sjálf ekki að veita samþykki fyrir láninu, enda ljóst að þau væru ekki með heimild til þess.
Þetta virðist saksóknari hafa tekið sem gildar ástæður og við lok málflutnings síns á mánudaginn sagði hann að ekki væri farið fram á sakfellingu yfir Björk að fullu, heldur fyrir tilraun til markaðsmisnotkunar. Væntanlega er þar átt við að pósturinn með samþykki hennar, sem kom eftir að lánið var veitt, sýni fram á brotavilja hennar. Sagði saksóknari að væri hún sakfelld færi ákæruvaldið aðeins fram á skilorðsbundinn dóm.
Verjandi Bjarkar sagði að það blasi skýrlega við í hennar tilviki að búið sé að valda henni miklu tjóni og „tilhæfulaust að ráðast á hana með þessum hætti.“ Fór hann fram á að hún væri sýknuð af öllum kröfum og að sakarkostnaður væri að fullu greiddur úr ríkissjóði.
Leiðrétt kl 1:07: Í upphaflegu fréttinni kom fram að Björk væri ákærð fyrir markaðsmisnotkun, en hún er ákærð í þeim lið sem snýr að umboðssvikum.