Ríkissáttasemjari hefur boðað Starfsgreinasambandið til fundar á morgun klukkan eitt, en verkföll munu hefjast aðfaranótt fimmtudagsins ef ekki verður samið. Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins segir í samtali við mbl.is að forsvarsmenn sambandsins viti lítið um hvað verði sett fram á fundinum, en að þeir mæti með opnum hug.
Björn segir að formenn þeirra 15 félaga sem standa á bak við Starfsgreinasambandið muni hittast fyrri partinn áður en haldið verður til ríkissáttasemjara.
Boðað hefur verið til verkfalls 28. og 29. maí. Þann 6. júní er svo fyrirhugað ótímabundið verkfall ef ekki semst fyrir þann tíma. Um 10.000 manns taka þátt í verkfallsaðgerðum SGS sem ná til launafólks á almennum vinnumarkaði á landsbyggðinni.