Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra, var borinn til hinstu hvílu í dag, en útför Halldórs var gerð frá Hallgrímskirkju í Reykjavík að viðstöddu fjölmenni.
Kistuna bera, frá vinstri, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, Finnur Ingólfsson, fyrrverandi ráðherra, Jón Kristjánsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Einar K. Guðfinsson, forseti Alþingis, Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, Guðmundur Bjarnason, fyrrverndi ráðherra, Jón Sveinsson lögmaður og Helgi Ágústson, sendiherra.
Halldór Ásgrímsson fæddist á Vopnafirði 8. september 1947. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 18. maí 2015.
Foreldrar hans voru Ásgrímur Halldórsson, framkvæmdastjóri á Höfn í Hornafirði, f. 7.2. 1925, d. 28.3. 1996, og Guðrún Ingólfsdóttir, húsmóðir, f. 15.6. 1920, d. 14.7. 2004. Systkini Halldórs eru: 1) Ingólfur, f. 1945, maki Siggerður Aðalsteinsdóttir. 2) Anna Guðný, f. 1951, maki Þráinn Ársælsson. 3) Elín, f. 1955, maki Björgvin Valdimarsson. 4) Katrín. f. 1962, maki Gísli Guðmundsson.
Halldór kvæntist 16.9 1967 Sigurjónu Sigurðardóttur, læknaritara, f. 14.12 1947. Foreldrar hennar voru Sigurður Brynjólfsson, f. 1918, d. 2002. og Helga K. Schiöth, f. 1918, d. 2012. Börn þeirra eru: 1) Helga, f. 1969, maki Karl Ottó Schiöth. Börn þeirra: a) Linda Hrönn, f. 1988, maki Sigurjón Friðbjörn Björnsson, f. 1988. Börn þeirra: Svava Bernhard, f. 2010, og Steinarr Karl, f. 2013. b) Karl Friðrik, f. 1996. 2) Guðrún Lind, f. 1975, maki Ómar Halldórsson. Börn þeirra: Halldór Andri, f. 2008, og Hilmir Fannar, f. 2009. 3) Íris Huld, f. 1979, maki Guðmundur Halldór Björnsson. Börn þeirra: Tara Sól, f. 2005, og Hera Björk, f. 2008.
Halldór lauk prófi frá Samvinnuskólanum árið 1965, námi í endurskoðun 1970 og fékk löggildingu sem endurskoðandi árið 1972. Hann stundaði framhaldsnám við Verslunarháskólana í Björgvin og Kaupmannahöfn árin 1971-73. Hann var lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands 1973-75 en helgaði sig eftir það stjórnmálastörfum og öðrum opinberum störfum.
Halldór var alþingismaður Austurlands 1974-78 og 1979-2003, alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður 2003-2006 fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var skipaður varaformaður Framsóknarflokksins 1980-94 og var formaður hans frá 1994-2006. Halldór var sjávarútvegsráðherra 1983-91 og ráðherra norrænna samstarfsmála 1985-87 og 1995-99, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-89, utanríkisráðherra 1995-2004, forsætisráðherra 2004-2006. Í maí 1999 gegndi hann um tíma störfum umhverfis- og landbúnaðarráðherra og í janúar og febrúar 2001 fór hann með heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Halldór sat í fjölmörgum nefndum og ráðum um ævina. Hann sat í bankaráði Seðlabanka Íslands 1976-83, (formaður 1980-83). Íslandsdeild Norðurlandaráðs 1977-78, 1980-83 og 1991-95 (formaður 1982-83 og 1993-95), Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins 1976. Sjávarútvegsnefnd 1991-94, efnahags- og viðskiptanefnd 1991-94 (formaður 1993-94), utanríkismálanefnd 1994-95, sérnefnd um stjórnarskrármál 1994-95. Formaður hóps miðjuflokkanna í Norðurlandaráði 1993-95.
Halldór tók við stöðu framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar 1. janúar 2007 með aðstöðu í Kaupmannahöfn og gegndi því starfi fram á árið 2013. Eftir að opinberum embættisstörfum Halldórs lauk fluttist hann til Íslands á ný og sinnti störfum í ýmsum alþjóðlegum samtökum sem beita sér fyrir friði og mannréttindum.