Refsað fyrir ummæli á Facebook

AFP

Nágrannakona Ólafs Ólafssonar hefur verið dæmd til þess að greiða 50 þúsund krónur í sekt fyrir ummæli sem hún ritaði á Facebook. Ummælin voru jafnframt dæmd dauð og ómerk. Eins er henni gert að greiða lögmanni sínum 1,2 milljónir króna í málskostnað.

Konan var ákærð fyrir að hafa vegið að mannorði oddvita Eyja- og Miklaholtshrepps, með því að bera út ærumeiðandi aðdróttun um hann í færslu á Facebook árið 2013:  „[...] En það vantar ekki að hann smjaðrar fyrir Ólafi Ólafssyni sem á Miðhraun 1. Enda gaf Ólafur honum nýjan traktor (mútur eða hvað?) [...]“.

Oddvitinn kærði ummæli konunnar en þá hafði konan fjarlægt þau af Facebook. Konan viðurkenndi að hafa ritað ummælin. Hún sagðist hafa verið að alhæfa og hefði átt að orða hlutina betur. Kom fram hjá henni að skrif hennar um traktor, sem oddvitinn átti að hafa fengið að gjöf frá Ólafi Ólafssyni, væru bara orðrómur sem hún hefði heyrt. Kvaðst hún vera búin að biðjast afsökunar á því að hafa alhæft um traktorinn og kvaðst viðurkenna að hún hefði gert mistök.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að þrátt fyrir að oddvitinn hafi kannast við það við aðalmeðferð málsins að hafa í eitt skipti fengið lánaðan traktor og plóg hjá sveitunga sínum Ólafi Ólafssyni, eins og hann kvað algengt milli bænda, verði ekki talið að líkur hafi verið að því leiddar að sú staðhæfing konunnar að Ólafur hafi gefið honum nýjan traktor eigi við nokkur rök að styðjast.

Eins að ekki verði fallist á það með henni að láni verði á nokkurn hátt jafnað til gjafar á nýjum traktor eða að ummælin flokkist undir ýkjur sem telja megi heimilar sem lið í samfélagslegri gagnrýni á störf oddvitans og meinta misbeitingu hans á valdi sínu gagnvart fjölskyldu konunnar.

Enda þótt konan hafi borið fyrir dómi að staðhæfing þessi hefði byggst á orðrómi sem um þetta gengi í sveitinni þá kemur ekkert fram um það í færslu hennar á Facebook-síðunni í greint sinn. Ekkert er heldur fram komið í málinu sem telja má að hafi gefið henni fullt tilefni til að ætla að orðrómur þessi ætti við rök að styðjast. Þá verður ekki heldur talið að sú framsetning hennar í færslu sinni að setja orðin „mútur eða hvað“ innan sviga með spurningarmerki á eftir hafi falið í sér slíkan fyrirvara við sannleiksgildi staðhæfingar hennar um traktorsgjöfina að leitt geti til ábyrgðarleysis hennar á ummælunum. Þvert á móti verður að líta svo á að með þessari framsetningu hafi hún fremur lagt aukna áherslu á og ýtt undir að ummælin yrðu skilin svo að með gerðum sínum hefði oddvitinn gerst sekur um refsivert brot í starfi sínu, segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Fram kom við meðferð málsins að í mörg ár hefðu verið miklar deilur milli fjölskyldu hennar, sem ætti Miðhraun 2, og fjölskyldu Ólafs Ólafssonar, eigenda Miðhrauns 1, og hefðu nokkur þessara ágreiningsmála lent á borði lögreglu og farið fyrir dómstóla.

Jafnframt kom fram að konan og fjölskylda hennar hefðu lent í útistöðum við oddvitann og hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps, meðal annars vegna borunar eftir vatni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert