Ólafía B. Rafnsdóttir er bjartsýn á að trúnaðarráð VR fallist á kjarasamningsdrögin sem kynnt verða ráðinu klukkan 12:30 í dag. Fallist ráðið á drögin verður skrifað undir samning klukkan tvö í dag.
„Þegar ég er búin að kynna þetta fyrir trúnaðarráðinu er kominn endapunktur á samningsferlið.“ Hún á von á að trúnaðarráðið taki vel í samningsdrögin. „Félagsmenn VR hafa svo lokaorðið um samninginn þegar hann fer í atkvæðagreiðslu,“ segir Ólafía.
Hún er ánægð með að í drögunum hafi tekist að verja tekjur þeirra tekjulægstu og millitekjufólks. „Svo kallast skattabreytingaáform ríkisstjórnarinnar á við millitekjufólkið og hærri hópinn hjá VR,“ segir hún.
Boðaðar skattabreytingar segir hún vera eina forsendu fyrir kjarasamningunum. „Algjörlega, hópurinn minn er ekki eins samstilltur og hinir, ég er með meira af fólki með millitekjur og hærri kantinum. Skattatillagan talar til þeirra hópa.“
Miðað er við að samningarnir verði til þriggja og hálfs árs. „Samningsforsendurnar eru alveg skýrar. Ef það verður ekki kaupmáttaraukning á samningstímanum, þá er honum sagt upp. Hann er líka stefnumarkandi fyrir aðra hópa sem koma eftir á, auk skattabreytinganna sem liggja fyrir.“
Verðbólga myndi því ógna samningunum. „Það þarf að passa upp á að það verði kaupmáttaraukning. Aðrir í þjóðfélaginu verða að átta sig á því að þetta má ekki fara út í verðlagið og menn verða að halda að sér höndum til að við náum þessu sameiginlega markmiði.“
Hún segir atvinnurekendur fullfæra um að taka á sig launahækkanir, án þess að hækka verðlag. „Klárlega, við erum að sjá hér fyrirtæki í miklum blóma sem eiga að ráða við þetta. Ef menn standa ekki saman um að halda verðlagi niðri þá opnast samningurinn bara aftur.“