Vilja að Birgitta biðjist afsökunar

Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata. mbl.is/Ómar

Byggðarráð sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir furðu sinni og fullri vanþóknun á ummælum Birgittu Jónsdóttur, kapteins Pírata, í garð Skagfirðinga og Skagafjarðar. Ráðið krefst þess að þingmaðurinn biðjist opinberlega afsökunar á ummælum sínum.

Ályktun þess efnis var samþykkt á fundi ráðsins í gær.

Sem kunnugt er sagði Birgitta á Fésbókarsíðu sinni að Skagafjörður væri „Sikiley Íslands“, en til­efnið ver um­fjöll­un á frétta­vefn­um Stund­in þar sem gert er að því skóna að ákvörðun ríkis­stjórn­ar­inn­ar um að hætta um­sókn­ar­ferl­inu að Evr­ópu­sam­band­inu snú­ist ekki síst um hags­muni Kaup­fé­lags Skag­f­irðinga og íbúa Skaga­fjarðar.

Sikiley, sem hluti Ítal­íu, er þekkt meðal ann­ars fyr­ir tengsl eyj­ar­inn­ar við ít­ölsku mafíuna Cosa Nostra. 

Í ályktun byggðaráðsins segir að ummæli af þessu tagi lýsi fullu skilningsleysi þingmannsins á stöðu landsbyggðarinnar til viðhalds og uppbyggingar á atvinnu- og mannlífi og ákveðni Skagfirðinga til að standa vörð um þessa grunnþætti í sínu héraði. 

„Það að þingmaðurinn gefi í skyn að Skagafjörður sé mafíusamfélag, sem þrífst á glæpum og glæpatengdri starfssemi er með öllu ólíðandi og óverjandi og sæmir ekki þingmönnum né nokkrum öðrum.

Er það von okkar Skagfirðinga að þingmaðurinn hefji umræðuna upp úr þeirri lágkúru sem þessi ummæli báru með sér og í þá veru að efla traust og tiltrú almennings á Alþingi, alþingismönnum og störfum þeirra,“ segir í ályktuninni.

Frétt mbl.is: Segir Skagafjörð „Sikiley Íslands“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert