„Það er auðvitað þannig að allar lánveitingar sem tapast eru óheppilegar. Alveg eins og allar fjárfestingar sem tapast eru óheppilegar. Auðvitað var fólk algjörlega miður sín yfir því hvernig staðan var.“
Þetta sagði Jóhann Ásgeir Baldurs, fyrrverandi stjórnarmaður í SPRON, við aðalmeðferð í SPRON-málinu svokallaða í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Ákært er fyrir peningamarkaðslán að fjárhæð tveir milljarðar króna sem stjórn SPRON samþykkti á fundi sínum 30. september 2008 að veita Exista.
Lánið var framlengt fjórum sinnum og var síðasti gjalddagi þess 16. mars 2009. Það var ekki greitt til baka og verður að telja það sparisjóðnum að fullu eða að verulegu leyti glatað.
Á fundi endurskoðunarnefndar SPRON, í janúar 2009, kom fram að þetta hefði verið „óheppileg lánveiting“.
Jóhann Ásgeir sagðist viðurkenna það fúslega að hafa ekki séð efnahagshrunið haustið 2008 fyrir. „Ég er uppalinn í góðæri og hafði ekki séð annað eins áður,“ sagði hann.
Hann nefndi að þegar litið væri í baksýnisspegillinn mætti segja að allt sem gert hafi verið skömmu fyrir hrun gæti flokkast undir það að teljast „óheppilegt“. „Þetta er bara eðli viðskipta. Því miður getum við ekki alltaf haft rétt fyrir okkur, það er hluti að því að vera í rekstri. Stundum tekur maður réttar ákvarðanir og stundum rangar ákvarðanir,“ sagði hann og bætti við að mikilvægast væri að taka ávallt mið af aðstæðum á hverjum tíma.
Sérstakur saksóknari telur að fyrrum stjórnarmenn og forstjóri SPRON hafi farið út fyrir heimildir til lánveitinga og veitt Exista lánið án trygginga og án þess að meta greiðslugetu og eignastöðu félagsins í samræmi við útlánareglur sparisjóðsins.
Jóhann Ásgeir sagði ákæruna vera gríðarleg vonbrigði. Hann hafnaði því að stjórnin hefði ekki metið greiðslugetu og eignastöðu Exista. „Ég tel að við höfum gert meira en lánareglur kváðu á um.“
Þá kom honum á óvart að saksóknari hafi útlistað í ákæru sinni meintan snúning, fléttu, varðandi peningamarkaðslán VÍS, sem hann sagðist ekki hafa haft neina vitneskju um. Það sama gilti um aðra stjórnarmenn.
Jóhann Ásgeir sagði að lánveitingin til Exista hefði verið í samræmi við öll önnur peningarmarkaðslán. Þó svo að engar sérstakar tryggingar hefðu verið á bak við lánið, þá hefðu tryggingar verið á bak við það; eigið fé upp á tæpar 300 milljarða og á þessum tíma mat markaðurinn virði Existu á um 93 milljarða, sem hann taldi þó persónulega vera of lágt.
Hann sagði að stjórnin hefði oft og mörgum sinnum rætt um stöðu Exista, enda var félagið stór hluti af eignum SPRON. „Ég vissi hvernig lánssamningar Exista voru uppbyggðir og hafði átt samtöl við stjórnarmenn Exista um hvernig staðan væri.,“ sagði hann. Hljóðið hefði verið gott í mönnum og trú manna sú að félagið stæði styrkum fótum.
Einnig benti hann á að á stjórnarfundinum 30. september 2008 hefði verið fjallað um uppgjör Exista fyrir fyrstu sex mánuði ársins. Exista hefði verið skráð félag, í kauphöll, þannig að allar upplýsingar lágu fyrir opinberlega. Stjórnin hefði í raun búið yfir betri upplýsingum um fjárhagsstöðu Exista en ef hún hefði verið að meta óskráð félag.
„Það kom fram í afkomutilkynningunni sem við skoðuðum á fundinum að félagið væri fjármagnað til næstu 76 vikna. Og maður hefur tilhneigingu til að trúa því sem fram kemur í opinberum tilkynningum frá félögum. Það kom aldrei tilkynning um að sú staða hefði breyst,“ sagði hann.