„Ég hélt að þessi stjórnarmeirihluti gæti ekki komið mér á óvart lengur,“ segir Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni í dag. Vísar hún þar til afgreiðslu á frumvarpi til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli sem tekið var fyrir á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun.
Katrín segir að nefndarmenn hafi fengið frumvarpið í hendur með breytingum sem gerðar hafi verið á því klukkan 8:13 í morgun en tíu mínútum síðar hafi það verið tekið úr nefndinni gegn vilja hennar og Róberts Marshalls, þingflokksformanns Bjartrar framtíðar, og Svandísar Svavarsdóttur, þingflokksformanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sem einnig eiga sæti í nefndinni. Katrín segir að markmiðið með frumvarpinu, með þeim breytingum sem gerðar hafi verið á því, sé að taka skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg vegna Reykjavíkurflugvallar og sama eigi við um Akureyri og Egilsstaði samkvæmt breytingunum.
„Við óskuðum eftir því að þessi sveitarfélög fengju að koma fyrir nefndina og ræða við okkur um málið svo breytt en því var hafnað. Sama hvað fólki kann að finnast um staðsetningu flugvallarins í Reykjavík þá hlýtur okkur öllum að vera annt um vönduð vinnubrögð og sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga,“ segir Katrín ennfremur. Róbert segir málið „pólitískt reginhneyksli“ á sinni Facebook-síðu. Svandís skrifar einnig um málið í morgun á Facebook og segir málið forkastanlegt.
„Málið tók svo stórtækum breytingum eftir að fundur hófst nú í morgun og Egilstaðaflugvelli og Akureyrarflugvelli bætt við og þar með skipulagsvaldi þeirra sveitarfélaga. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir því að skipulagsvaldið að þessu leyti færðist til Alþingis en breytingin sem var kynnt nefndarmönnum eftir að fundur hófst gerir ráð fyrir því að skipulagsvaldið sé á hendi innanríkisráðherra,“ segir Svandís. Þau Katrín og Róbert hafi mótmælt afgreiðslunni harðlega.
„Viðkomandi sveitarfélög fengu ekki að koma á fund nefndarinnar og heldur ekki ráðuneyti innanríkismála og skipulagsmála sem er umhverfisráðuneytið. Málið var loks tekið út með liðsauka sem sóttur var til annarra nefnda og hefur ekki tekið þátt í umfjöllun um málið hingað til. Hér eru á ferðinni forkastanleg vinnubrögð og yfirgangur sem er formanni nefndarinnar og meirihlutanum til skammar.“