„Ég var bara nokkrum skrefum frá íbúð mannsins þegar hann skaut af byssunni,“ segir Aron Daníel Hjartarson en hann var að vinna við að mála grindverk fyrir framan fjölbýlishús við Hlíðarhjalla í Kópavogi þegar skotið var af haglabyssu í íbúð í húsinu. Aðspurður segir hann að honum hafi brugðið mjög þegar hann heyrði háan hvell en ekki áttað sig á því strax að um haglabyssuskot hafi verið að ræða.
„Ég heyrði bara stóran hvell bak við húsið. Mér datt fyrst í hug að þetta væru bara einhverjir krakkar með gamla flugelda eða eitthvað slíkt og hélt áfram að mála. Síðan líða kannski 15-20 mínútur þar til lögreglan og sérsveitin kemur á staðinn fullvopnuð. Þá brá mér frekar mikið.“ Hann hafi ekki beinlínis átt von á því að verið væri að skjóta af haglabyssu í íbúðahverfi. það hafi verið ákveðið áfall að átta sig á því hvað væri í gangi.
„Lögreglan kallaði á mig og sagði mér að koma mér burt af svæðinu,“ segir Aron. Hann hafi ekki áttað sig alveg strax á aðstæðum og haldið áfram að mála í smá tíma en síðan farið og talað við lögreglumann sem hafi sagt honum hvað væri í gangi. Hann hafi síðan orðið við tilmælum lögreglunnar. Síðan hafi hann þurft að bíða nokkurn tíma eftir fari þar sem bíllinn hans hafi verið inni á svæðinu sem lögreglan lokaði. Þar sé hann enn.
Frétt mbl.is: Byssumaður í Kópavogi