Sérfræðileg greining Dr. Hersis Sigurgeirssonar, dósents í fjármálum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, á líkum þess að greiðslufall yrði af tveggja milljarða króna láni sem SPRON veitti Exista þann 30. september 2008 sýnir að þær hafi verið hverfandi. Er þá miðað við upplýsingar um fjárhagsstöðu Exista þann dag sem lánið var veitt.
Þetta kemur fram í greinargerð Rannveigar Rist, fyrrverandi stjórnarmanns í SPRON og núverandi forstjóra Rio Tinto Alcan á Íslandi, í SPRON-málinu svokallaða.
Rannveig og þrír aðrir fyrrum stjórnarmenn SPRON, ásamt Guðmundi Erni Haukssyni, fyrrum forstjóra sparisjóðsins, eru ákærð í málinu fyrir umboðssvik. Þeim er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga þegar þau samþykktu á stjórnarfundi að veita Exista tveggja milljarða króna peningamarkaðslán án trygginga og án þess að meta greiðslugetu og eignastöðu félagsins í samræmi við útlánareglur sparisjóðsins.
Undir rekstri málsins aflaði Óttar Pálsson, verjandi Rannveigar, sérfræðimats Hersis á líkum þess að greiðslufall yrði á láninu. Jafnframt var farið þess á leit að gerður yrði samanburður á greiðslufallslíkum vegna lánsins til Exista annars vegar og greiðslufallslíkum sambærilegs láns sem veitt hefði verið á sama tíma til Glitnis, Kaupþings eða Landsbanka Íslands.
Hersir beitti þremur viðurkenndum aðferðum við að leggja mat á líkur þess að greiðslufall yrði af láninu, að því er segir í greinargerðinni. Aðferðirnar eru svokallað Z”-skor Altmans, aðferð sem kennd er við Beaver, McNichols og Rhie og loks líkan Mertons.
Við matið var tekið mið af fjárhagslegri stöðu Exista hinn 30. september 2008 eins og hún birtist í reikningsskilum félagsins og/eða upplýsingum um markaðsverðmæti hlutabréfa þess.
„Niðurstaða sérhverrar aðferðar við matið er samkvæmt þessu afdráttarlaus um að gjaldþrot Exista á þeim tíma sem máli skiptir gat alls ekki talist líklegt og í raun hverfandi líkur á því,“ segr í greinargerðinni.
Við samanburð á áhættunni sem stafaði af hinni umræddu lánveitingu, sem ákært er fyrir, annars vegar og þeirri áhættu sem hlotist hefði af sambærilegri lánveitingu til íslenskra banka á sama tíma hins vegar, þá er niðurstaðan sú að á þeim tíma sem SPRON veitti lánið til Exista hafi „líklega ekki [verið] ástæður til að ætla að í lánvetingu til Exista fælist verulega meiri áhætta en í sambærilegri lánveitingu til íslensks banka“.
Byggir Rannveig á því að sú greining sem fram kemur í matsgerð Hersis, sem er dagsett 2. febrúar 2015, sé rétt. Hana beri að leggja til grundvallar við úrlausn málsins.