Grunaðar um að reyna kúga fé af Sigmundi

Konurnar eru grunaðar um að hafa sent bréf í pósti …
Konurnar eru grunaðar um að hafa sent bréf í pósti heim til forsætisráðherra og krafist þess að hann greiddi þeim tiltekna fjárupphæð. mbl.is/Ómar

Tvær konur á fertugsaldri voru handteknar fyrir helgina í tengslum við rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á tilraun til fjárkúgunar. Konurnar voru handteknar í Hafnarfirði um hádegisbil sl. föstudag. Þær eru grunaðar um að hafa sent bréf í pósti heim til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og krafist þess að hann greiddi þeim tiltekna fjárupphæð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Enn fremur var tilgreint að fjármunina ætti að skilja eftir á ákveðnum stað sunnan Vallahverfis í Hafnarfirði. Þar handtók lögregla konurnar.

Við yfirheyrslur játuðu konurnar að hafa sent umrætt bréf og var þeim sleppt að yfirheyrslum loknum. Málið hefur verið rannsakað og unnið í góðri samvinnu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og embættis ríkislögreglustjóra.

Málið telst að mestu upplýst en að lokinni rannsókn verður það sent til ríkissaksóknara, sem tekur ákvörðun um næstu skref.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert