„Ég kom hvorki nálægt bréfinu né sendingu þess. Ég blandaðist bara inn í þetta út af systur minni,“ segir Malín Brand blaðamaður sem ásamt systur sinni Hlín Einarsdóttur, sem einnig hefur starfað sem blaðamaður, var handtekin af lögreglunni á föstudaginn vegna tilraunar til þess að kúga fé af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra.
Malín segir aðkomu sína að málinu hafa í raun aðeins verið þá að hafa verið með systur sinni í bíl. Hún hafi að hluta til vitað hvað stæði til en talið að enginn myndi taka málið alvarlega þar sem augljóst væri að veik manneskja ætti í hlut. Þegar lögreglan hafi mætt á staðinn hafi hún hugsað með sér hvað hún væri búin að koma sér í og ætlað að aka í burtu. „En ég hef játað það allt og ég hef ekkert að fela,“ segir hún og bætir við: „Ég harma aðkomu mína að þessu máli. Mín mistök voru að sjálfsögðu að vera á staðnum í stað þess að fara aldrei með.“
Lögreglan sendi frá sér tilkynningu fyrir hádegi í morgun, þar sem m.a. sagði að konurnar tvær hefðu játað að hafa sent umrætt bréf. Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is fyrir stuttu að heppilegra hefði verið að segja að konurnar hefðu játað aðild að málinu. "Það þarf nú kannski ekki tvo til að póstleggja bréf," sagði hann.
Fréttir mbl.is: