Ísland í hringiðu tölvuglæpa

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu átti þátt í því að stöðva starfsemi …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu átti þátt í því að stöðva starfsemi Silk Road. mbl.is/Þórður

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aflaði mikilvægra gagna í rannsókn sakamáls sem leiddi til þess að bandaríska alríkislögreglan (FBI) hafði hendur í hári Ross Ulbricht, sem stýrði vefsíðunni Silk Road þar sem fíkniefni voru seld á svörtum markaði. „Í öllu samhengi þá er þetta mjög stórt mál,“ segir Hafliði Þórðarson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá fjármunabrotadeild lögreglunnar.

Ulbricht, sem er 31 árs gamall, var sakfelldur í málinu í febrúar sl. en dómur féll nú fyrir helgi. Refsingin var mjög þung, m.a. tveir lífstíðardómar, og á hann ekki möguleika á reynslulausn. Ulbricht stýrði Silk Road undir dulnefninu Dread Pirate Roberts.

Silk Road, sem vísar í gamla verslunarleið sem tengdi saman Evrópu og Asíu á miðöldum, var um tíma stærsta markaðstorg - ekki ósvipað eBay - fyrir ólögleg fíkniefni og aðra þjónustu á hulduneti, eða svokölluðu dark web. Í mars 2013 voru um 10.000 hlutir skráðir til sölu á síðunni, en þar af voru 7.000 þeirra fíkniefni á borð við kannabis, heróín og MDMA. Saksóknarar sögðu að sölutekjur Silk Road hafi numið um 213,9 milljónum dala (um 29 milljarðar króna) og tekið um 13,2 milljónir dala (um 1,8 milljarður króna) í þóknanir áður en lögreglan lokaði síðunni í október 2013. 

FBI þakkaði íslensku lögreglunni

FBI sendi frá sér yfirlýsingu í febrúar eftir að Ulbricht af sakfelldur, en þar er lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þakkað fyrir aðstoð við rannsókn málsins. 

Þar kom fram að Silk Road hefði verið neðanjarðarstarfsemi sem hefði gert notendum kleift að kaupa og selja fíkniefni og annan ólögmætan varning nafnlaust. Þetta hafi verið alþjóðlegt markaðstorg þar sem menn hafi notað rafmyntina Bitcoin sem gjaldmiðil. FBI sagði að handtakan á Ulbricht hefði sent út skýr skilaboð til þeirra stunda ólögmæta starfsemi og reyni að fara huldu höfði á netinu að þeir gætu ekki falið sig.

Hafliði hefur fylgst grannt með málinu, enda kom hann að rannsókn málsins. Aðspurður segir hann að réttarbeiðni hefði borist frá bandarískum yfirvöldum á vordögum 2013 en þá hóf lögreglan á höfuðborgarsvæðinu afskipti af málinu. Hafliði segir að hýsingin á Silk Road hafi verið í gagnaveri hér á landi, þ.e. megin hýsingin á upplýsingum, gögnum og netþjóni sem hélt utan um móttöku á Bitcoin-færslum. 

Ekki var um eiginlega rannsókn að ræða heldur fylgdist lögreglan með umferðinni og aflaði gagna.„Það heppnaðist mjög vel að afla þeirra gagna,“ segir hann og bætir við að það hafi verið gert með dómsúrskurði hér á landi og tókst lögreglunni að komast að því hvaða IP-tala tengdist þeim vélum sem voru að stjórna síðunni.

Tekið skal fram að enginn var handtekinn á Íslandi eða yfirheyrður vegna málsins, en Hafliði bendir á að hafi lagt hald á um 24.000 Bitcoins hér á landi. „Þetta voru innistæður sem viðskiptavinirnir voru með á sínum heimasvæðum.“

Handtökur víða um heim

Spurður út í þau gögn sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aflaði segir Hafliði að þau hafi verið mikilvæg fyrir rannsókn málsins ytra. Þau hafi vísað á stjórnendur og ýmiskonar samskipti sem áttu sér þarna stað. „Það fylgdu þessu ýmsar handtökur hér og þar um heiminn. Ég sá í fréttum að breska lögreglan var að nýta úr þessu, og í Svíþjóð voru líka handtökur; það er enn verið að vinna úr þessu.“

Um tíma stóð til að íslenskir lögreglumenn gæfu skýrslu fyrir dómi í Bandaríkjunum, þ.e. til að staðfesta að lagt hafi verði hald á umrædd gögn. Það reyndist þó ekki þörf á því þegar á leið þar sem verjendur samþykktu gögnin.

Aðspurður segir Hafliði að nokkrir lögreglumenn hjá fjármunabrotadeild og tölvurannsóknardeild lögreglunnar hafi komið að málinu. „Þetta er ekki rannsókn sem slík; við erum að afla þarna gagna. Það sem skiptir máli í þessum tölvurannsóknum er að geta brugðist skjótt við. Ég held að þeir [FBI] hafi aðallega verið ánægðir með það að samvinnan hafi gengið hratt og vel, því það er yfirleitt Akkilesarhæll í rannsókn á milli landa,“ segir Hafliði.

Réttarbeiðnum sem tengjast tölvuglæpum hefur fjölgað verulega

Spurður hvort málið sé einsdæmi hér á landi, segir hann að réttarbeiðnum um rannsókn og aðstoð vegna mála sem tengjast tölvuglæpum hafi fjölgað verulega á undanförnum árum Það sé fyrst og fremst vegna tilkomu gagnavera á Íslandi. „Þá eru allskonar vefsíður hýstar á íslenskri grundu,“ segir hann og bendir á hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafi verið skráð lén hér á landi, eins og greint var frá í fjölmiðlum í haust. Hafliði tekur fram að það málið hafi ekki komið inn á borð lögreglunnar.

Þetta sýni hins vegar einfaldlega fram að svona vefhýsing sé ekki bundin neinum landamærum. „Þar með erum við komin inn í hringiðuna á tölvuglæpum,“ segir hann. Ekki eigi eftir að draga úr því.

Eins og segir hér að ofan, þá hlaut Ulbricht mjög þungan dóm og var gerði dómstóllinn um 185 milljónir dala upptækar, eða sem samsvarar um 25 milljörðum króna „Í öllu samhengi þá er þetta mjög stórt mál og þykir mjög stórt mál í sambandi við þess umfjöllun um tölvuglæpi sem slíka,“ segir hann, enda eitt það stærsta sem dómur hefur fallið í.

Viðskipti með fíkniefni og annan ólögmætan varning fóru fram á …
Viðskipti með fíkniefni og annan ólögmætan varning fóru fram á Silk Road og nam veltan milljónum dala. Nafn vefsíðunnar vísaði í forna verslunarleið, en um hana fóru öldum saman kaupmannalestir með silki og annan dýran varning milli Kína og Vesturlanda. mynd/Wikipedia
Ross Ulbricht er maðurinn sem stóð á bak við Silk …
Ross Ulbricht er maðurinn sem stóð á bak við Silk Road.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fylgdist grannt með því sem fór fram …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fylgdist grannt með því sem fór fram á vefsíðunni og aflaði gagna. AFP
Réttarbeiðni barst frá bandarískum yfirvöldum á vordögum 2013. Hér má …
Réttarbeiðni barst frá bandarískum yfirvöldum á vordögum 2013. Hér má sjá glitta í höfuðstöðvar FBI í Bandaríkjunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert