Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir enn langt í land í samningaviðræðum ríkisins og hjúkrunarfræðinga. Ríkið hafi boðið einu prósenti hærri hækkun launa í dag en boðið var á föstudaginn. Það hefði þýtt 2.000 krónum hærri byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga. Sáttafundi í dag lauk án árangurs.
„Við fengum óformlegt tilboð frá ríkinu sem var ekki nægilegt til að gangast við. Okkar tilfinning er að það sé enginn vilji hjá hinu opinbera til að jafna launamun kynjanna né heldur að leiðrétta laun hjúkrunarfræðinga til jafns við aðra háskólamenn,“ segir Ólafur.
Hann segir markmið Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga að tryggja hjúkrunarfræðinga í starfi til framtíðar hér á landi. „Það virðist ekki vera markmið ríkisstjórnarinnar,“ segir Ólafur. Verkfallið heldur því áfram.
„Tilboðið sem við fengum í dag var einu prósenti hærra en það sem við fengum á föstudaginn. Það er ekki ásættanlegt að byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga verði 2.000 krónum hærri en þau buðu okkur á föstudaginn,“ segir hann.
Ólafur hefur áhyggjur af umræðunni um lagasetningu á verkfallið, því hjúkrunarfræðingar muni ekki taka því liggjandi. Hann hafi heyrt á hjúkrunarfræðingum að þeir myndu grípa til uppsagna verði lög sett á verkfall hjúkrunarfræðinga. „Lagasetning myndi því ekki leysa neinn vanda, heldur eingöngu fresta honum.“