Lögreglan rannsakar aðra fjárkúgun

mbl.is/Þórður

Fjárkúgun var kærð til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Málið er sagt tengjast sömu konum sem gerðu tilraun til að kúga fé út úr forsætisráðherra fyrir helgi, en um annað ótengt mál er að ræða. 

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við mbl.is, að kæran hafi borist fyrir hádegi í dag. Hann upplýsir hins vegar ekki að hverjum kæran beinist né um efni hennar.

DV greindi fyrst frá málinu í dag og hafa fleiri fjölmiðlar fylgt í kjölfarið. RÚV segist hafa öruggar heimildir fyrir því að systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand hafi verið kærðar, en þær eru sagðar hafa sakað mann um gróft kynferðisbrot. Var hann krafinn um að greiða þeim um 700 þúsund krónur ella myndu þær eyðileggja mannorð hans. 

Eins og sagt var frá í gær, hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu einnig til rannsóknar tilraun til fjárkúgunar gagnvart Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Greint var frá því í tilkynningu að tvær konur á fertugsaldri sem grunaðar væru um afbrotið hefðu verið handteknar vegna málsins fyrir helgi. Játuðu þær aðild að málinu og var sleppt að yfirheyrslum loknum.

Fram kom í fjölmiðlum í gær að þetta væru systurnar Hlín og Malín. 

Sigmundur Davíð greindi frá því í yfirlýsingu sem hann sendi í gær, að bréf hefði borist heim til hans fyrir fáeinum dögum. Bréfið var í umslagi merktu eiginkonu hans.

Í yfirlýsingu forsætisráðherra um málið segir að því hafi verið hótað að birtar yrðu opinberlega upplýsingar sem reynast myndu skaðlegar ef hann greiddi ekki milljónir króna til bréfritara og samverkamanns hans. Áréttað var að ef ekki yrði gengið að kröfunum eða ef lögreglu yrði gert viðvart yrði séð til þess að fjölmiðlar fengju málið til umfjöllunar og „sagðist bréfritari geta tryggt að sú umfjöllun yrði öll hin versta“, segir í yfirlýsingu ráðherrans.

Sigmundur Davíð gerði lögreglunni strax viðvart. Í bréfinu var tilgreint að fjármunina ætti að skilja eftir á ákveðnum stað sunnan Vallahverfis í Hafnarfirði. Þar handtók lögreglan konurnar tvær. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar telst málið upplýst að mestu leyti. Að lokinni rannsókn verði málið sent til ríkissaksóknara sem ákveði næstu skref.

„Ég kom hvorki nálægt bréfinu né sendingu þess. Ég blandaðist bara inn í þetta út af systur minni,“ sagði Malín í samtali við mbl.is í gær. Malín sagði aðkomu sína að málinu hafa í raun aðeins verið þá að hafa verið með systur sinni í bíl. Hún hafi að hluta til vitað hvað stæði til en talið að enginn myndi taka málið alvarlega þar sem augljóst hefði verið að veik manneskja ætti í hlut. „Ég harma aðkomu mína að þessu máli. Mín mistök voru að sjálfsögðu að vera á staðnum í stað þess að fara aldrei með.“

Malín hefur starfað sem blaðamaður við Morgunblaðið en er komin í leyfi vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert