Mótsagnakenndur málatilbúnaður

Óttar Pálsson, verjandi Rannveigar Rist, hér til vinstri.
Óttar Pálsson, verjandi Rannveigar Rist, hér til vinstri. mbl.is/Styrmir Kári

Það er mótsagnakennt að annars vegar tortryggja tveggja milljarða króna innlán VÍS til SPRON, samhliða því að Exista fái lán sömu fjárhæðar frá SPRON, og halda því hins vegar fram að lánið til SPRON hafi haft neikvæð áhrif á lausafjárstöðu sparisjóðsins.

Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Óttars Pálssonar, verjanda Rannveigar Rist, við málflutning í SPRON-málinu svonefnda í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Sérstakur saksóknari hefur ákært fyrrum stjórnarmenn og forstjóra SPRON vegna tveggja milljarða króna peningamarkaðslánsins til EXISTA. Óttar sagði að ákæruvaldið hefði gert innlánið frá VÍS, sem barst rétt áður en SPRON lánaði Exista, tortryggilegt í málatilbúnaði sínum.

Í ákæru sinni talar sérstakur saksóknari um „snúning“ í þessu samhengi og segir að með þessu hafi áhættunni af láninu til Exista verið velt af VÍS og yfir á SPRON, sem hafi síðan setið uppi með fullt tjón vegna málsins.

Tengslin augljós

Óttar sagði það augljóst að tengsl væru á milli lánsins til Exista og innláns VÍS til SPRON, sem notað var - eftir atvikum - til að fjármagna lánveitinguna. Samskipti starfsmanna í fjárstýringu hjá SPRON og Exista væru ótvíræð um þetta.

Hins vegar væri það ekki augljóst að „VÍS-fjármögnunin“ hefði í raun nokkra þýðingu við úrlausn málsins. Það stafaði af því að ákæruatriðin í málinu lúta að láni SPRON til Exista og þeirri áhættu sem fylgdi því láni. Í sjálfu sér hefði fjármögnun lánsins - þ.e. innlán VÍS - ekki haft áhrif á áhættuna sem fylgdi útláninu.

Óttar nefndi einnig að ákæruvaldið hefði ítrekað fjallað um lausafjárstöðu SPRON fyrir dómi. „Ég vil benda á að það er afsakplega mótsagnakennt að tortryggja annars vegar það að samhliða peningamarkaðsláninu til Exista hafi komið innlán frá VÍS og halda því síðan fram í hina höndina að lánið til Exista hafi haft einhver neikvæð áhrif á lausafjárstöðu SPRON. Það er eitthvað sem gengur einfaldlega ekki upp,“ sagði Óttar.

Ef það væri rétt að þetta tvennt hafi haldist í hendur, þá er ljóst að lánveitingin til Exista hefði engin áhrif á lausafjárstöðu SPRON „og því er málatilbúnaður ákæruvaldsins marklaus með öllu,“ bætti hann við.

Hann sagði að það skipti einnig miklu máli að umbjóðanda sínum, Rannveigu Rist, hefði ekki verið kunnugt um þennan „snúning“. Og það sama ætti við um aðra stjórnarmenn sem eru ákærðir í málinu. Þeir hafa sagst fyrir dómi ekki hafa vitað af innláninu frá VÍS þegar þeir samþykktu á stjórnarfundi að veita Exista lánið.

Rannveig Rist.
Rannveig Rist. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert