Munnlegur málflutningur í SPRON-málinu svonefnda hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Birgir Jónasson, saksóknari í málinu, hefur leik en í kjölfarið munu verjendur sakborninganna flytja mál sitt. Málflutningurinn mun standa yfir í dag.
Vitnaleiðslum lauk síðdegis í gær, en aðalmeðferðin í málinu hófst á mánudaginn.
Fjórir fyrrverandi stjórnarmenn SPRON, þau Ari Bergmann Einarsson, Jóhann Ásgeir Baldurs, Margrét Guðmundsdóttir og Rannveig Rist, sem og fyrrverandi sparissjóðstjóri SPRON, Guðmundur Örn Hauksson, eru ákærð í málinu fyrir umboðssvik.
Þeim er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga þegar þau samþykktu á stjórnarfundi SPRON hinn 30. september 2008 að veita hlutafélaginu Existu tveggja milljarða króna peningamarkaðslán án trygginga og án þess að meta greiðslugetu og eignastöðu félagsins í samræmi við útlánareglur sparisjóðsins.
Telur saksóknari óhjákvæmilegt að líta svo á að brot ákærðu hafi verið stórfelld.