Íbúar í fjölbýlishúsunum við Hlíðarhjalla í Kópavogi sem rýmd voru í gær vegna gruns um að maður væri að skjóta úr haglabyssu í íbúð að Hlíðarhjalla 53 fengu að snúa aftur heim á tíunda tímanum í gærkvöldi. Lögreglan hafði þá eftir sex tíma umsátur farið inn í íbúðina sem reyndist mannlaus.
Lögreglan lokaði stóru svæði í kringum fjölbýlishúsið Hlíðarhjalla 51-55 eftir að tilkynningar bárust um að hugsanlega hefðu heyrst skothvellir. Íbúðir voru rýmdar. Aðgerðin hafði áhrif á stærra svæði og er talið að hún hafi haft áhrif á líf vel á annað hundrað íbúa á svæðinu.
Lagt var hald á haglabyssu og skotfæri í íbúðinni. Lögreglan gat ekki staðfest það í gærkvöldi að um raunverulega skothvelli hefði verið að ræða. Hún lætur þess getið að lögregla hafi farið í sömu íbúð í fyrradag og þá fundið ummerki um að hleypt hefði verið af haglabyssu á grindverk utan við húsið. Eigandi íbúðarinnar mun ekki hafa verið í henni um tíma.
Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði ekki hægt að fullyrða að einhver hefði verið í íbúðinni fyrr um daginn því alltaf liði einhver tími frá því atburðir væru tilkynntir og þar til lögregla kæmi á staðinn. Hann sagði að málið væri í rannsókn. Ásgeir vildi ekki tjá sig um það hvort leit væri hafin að byssumanni þegar blaðamaður mbl.is ræddi við hann á vettvangi. „Við verðum að taka svona tilkynningar alla leið, tryggja öryggi almennings og lögreglumanna. Við einangruðum það vinnusvæði sem talið var nauðsynlegt,“ sagði hann og bætti við að síðan tækju menn sér þann tíma sem þyrfti til að ljúka vettvangsvinnu.