Bærinn átti ekki forkaupsrétt

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. Árni Sæberg

Síldarvinnslan og félagið Q44 voru sýknuð í Hæstarétti af kröfu Vestmannaeyjabæjar um að samningur félaganna um kaup á Bergi-Huginn ehf. yrði ógiltur. Sneri Hæstiréttur við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu. Bærinn taldi sig eiga forkaupsrétt á skipum Bergs-Hugins.

Tilkynnt var um kaupin með fréttatilkynningu 30. ágúst árið 2012. Þar greindi Síldarvinnslan hf. frá því að félagið hefði „undirritað kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Bergur-Huginn ehf.“ í Vestmannaeyjum. Fram kom í tilkynningunni að seljandi væri „hlutafélag í eigu Magnúsar Kristinssonar útgerðarmanns og fjölskyldu“. Það var félagið Q44 ehf.

Bærinn taldi aftur á móti að hann ætti rétt á að ganga inn í kaupsamning á grundvelli forkaupsréttar sveitarfélags að fiskiskipum í samræmi við 12. grein laga um stjórn fiskveiða. Í henni er kveðið á um að ef selja eigi fiskiskip úr einu sveitarfélagi til annars eigi sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að því. Höfðaði bærinn því mál gegn Síldarvinnslunni og Q44 og vann fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Síldarvinnslan og Q44 áfrýjuðu til Hæstaréttar.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að kaupsamningur áfrýjenda hafi ekki gerður um fiskiskip, heldur öll hlutabréf í Bergi-Hugin ehf. Ekki væri hægt að láta 12. grein fiskveiðistjórnunarlaga yfir þau og auk þess væri ákvæði í lögunum um að framselja megi aflahlutdeild skipa.

Bókfært verðmæti skipa Bergs-Hugins ehf. hafi aðeins verið rúmur fimmtungur heildareigna félagsins samkvæmt ársreikningi, sem síðast hafði verið gerður fyrir það áður en áfrýjendur gerðu kaupsamninginn um alla hluti í því, en andvirði varanlegra fiskveiðiheimilda á hinn bóginn meira en ⅔ af verðmæti heildareigna félagsins. Þannig taldi Hæstiréttur ekki geta talist leiddar nokkrar líkur að því að kaupsamningur áfrýjenda hafi í reynd miðað að því sem meginatriði að koma fram yfirfærslu eignarréttar að fiskiskipum Bergs-Hugins ehf., en klæða þau viðskipti í annan búning.

Því sýknaði Hæstiréttur Síldarvinnsluna og Q44 af kröfu Vestmannaeyjabæjar. 

 Frétt mbl.is af dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert