Það vakti mikla athygli hér á landi í marsmánuði þegar að lögregluyfirvöld í Kaliforníufylki í Bandaríkjunum lýstu eftir íslenskum ríkisborgara, Alfreð Erni Clausen.
Alfreð var sakaður um að hafa svikið meira en 44 milljónir dollara, rúma sex milljarða króna, út úr hópi fólks með loforðum um að breyta lánum þess. Átti Alfreð að hafa verið í slagtogi með tveimur Bandaríkjamönnum sem voru handteknir í mars. Ekki liggur fyrir hvort þeir séu enn í varðhaldi.
Í skriflegu svari Maurice Landrum, yfirrannsóknarmanns við lögregluembættið í San Bernardino, við fyrirspurn mbl.is, kom fram að Alfreð væri eftirlýstur flóttamaður og að verið væri að skoða möguleika á því að hann yrði handtekinn og framseldur til Bandaríkjanna.
Það svar barst 18. mars s.l. en að sögn Villhjálms H. Villhjálmssonar, lögmanns Alfreðs, hefur ekkert heyrst frá embættinu síðan að málið kom upp. Vilhjálmur sendi bæði tölvupóst og skriflegt erindi til embættisins þar sem fram kemur að Alfreð væri reiðubúinn að aðstoða embættið til þess að upplýsa málið.
„Ég bíð bara spenntur eftir að heyra í saksóknara,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is. „Ég er búinn að senda honum erindi og bjóða honum það að ræða við umbjóðanda minn hvenær sem honum hentar. En það hafa engin svör borist."
Vilhjálmur segir það undarlegt í ljósi þess hversu alvarlegar ásakanirnar voru. „Ég tel að það sé stórfurðulegt að það sé enginn búinn að hafa samband. En fyrst það hefur ekki gerst lítur út fyrir að hann hafi ekkert við hann að tala.“
Vilhjálmur segir jafnframt að málið hafi verið sett fram með mjög sérkennilegum hætti. „Mér fannst reyndar líka sérkennilegt hvað sumir íslenskir fjölmiðlar gengu hart fram án þess að hafa að mínu mati mikið fyrir sér í því.“
Uppfært klukkan 14:13
Í samtali við mbl.is segir Vilhjálmur það sérkennilegt útspil bandarískra stjórnvalda að lýst hefur verið eftir Alfreð af alþjóðalögreglunni Interpol.
„Mér sýnist þetta vera nýtt og sérkennilegt bandarískra stjórnvalda í ljósi þess að það liggur fyrir hvar umbjóðandi minn er,“ segir Vilhjálmur og bætir við að Alfreð sé staddur á Íslandi. „Hann hefur ítrekað boðist til þess að ræða við saksóknara í Kaliforníu og boðist til þess að upplýsa málið með hverjum þeim hætti sem saksóknara þyki henta en það hefur ekki verið þegið. Þannig að þetta er sérkennilegt útspil svo ekki sé fastar að orði kveðið.“