Svandís með unga?

Stoltir foreldrar.
Stoltir foreldrar. ljósmynd/Ólafur Gunnar Sæmundsson

Ástsæla álftin Svandís sem verpt hefur í hólmanum í Bakkatjörn á Seltjarnarnesi undanfarin nítján sumur er komin með unga. Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur hefur fylgst með álftaparinu undanfarin ár, en mikill áhugi hefur verið á því hvort sama parið komi á tjörnina á hverju ári. Hann greinir fuglana í sundur á gogginum og segir að sami kvenfuglinn hafi komið í um nítján sumur en líklegt sé að hún hafi skipt um maka á nokkrum skeiðum ævinnar. 

Álftir eru langlífir fuglar sem para sig saman til lífstíðar en þó getur komið til skilnaðar ef varpið gengur illa eða ef annar makinn deyr. Þá finnur sá er lengur lifir sér nýjan maka líkt og álftin Svandís hefur gert.

Parið eignaðist aðeins einn unga í ár. Jóhann segir að betri sé einn ungi en enginn en kvenfuglinn hefur verið lasleg undanfarin ár. Þá getur einnig verið að karlfuglinn sé illa frjór og hafi ekki náð að frjóvga eggið almennilega. Mikilvægt er að varpið heppnist því ef eitthvað kemur fyrir aukast líkurnar á því að til skilnaðar komi milli parsins. Þegar litið var til með Svandísi í gærkvöldi var unginn hins vegar hvergi sjáanlegur, og því ekki ljóst hvort hann sé á lífi.

Jóhann segir mikla eftirspurn eftir vel staðsettum óðulum hjá álftunum. Álftapörin reyni oft að ná undir sig óðulum frá öðrum pörum og þá sé það sterkara og eldra parið sem fari með sigur af hólmi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert