Ljóst er að skotvopn hefur verið notað í garðinum við Hlíðarhjalla 53 í Kópavogi að undanförnu. Ekki liggur þó fyrir hvenær það var eða hversu oft það hefur verið notað.
Ekki er víst að hvellirnir sem tilkynntir voru til lögreglu á þriðjudag hafi verið vegna skotvopns. Tilkynnt var um meinta skothvelli í Hjallahverfinu árla morguns 11. maí síðastliðinn.
Samkvæmt upplýsingum frá Ásgeiri Þór Ásgeirssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni er rannsókn málsins ólokið en þó liggi fyrir að skotvopn hafi verið notað í garðinum að undanförnu.
Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð á vettvang kl. 15 á þriðjudag eftir að þrjár tilkynningar bárust um skothvell í hverfinu. Daginn eftir settu fleiri íbúar í hverfinu sig í samband við lögreglu og sögðust hafa heyrt hljóðið. Töldu þeir einnig að um byssuhvell hefði verið að ræða.
Þetta er ekki í fyrsta skipti á síðustu vikum sem meintir skothvellir eru tilkynntir til lögreglu af íbúum Hjallahverfisins í Kópavogi. Samkvæmt heimildum mbl.is höfðu nokkrir íbúar samband við lögreglu rétt eftir klukkan hálf sex mánudagsmorguninn 11. maí síðastliðinn.
Þá höfðu nokkrir reglulegir hvellir ómað um Hjallahverfið í tvígang, fyrst rétt eftir klukkan hálf sex og aftur um fimmtán mínútum síðar, og töldu þeir sem tilkynntu um málið að um byssuskot hefði verið að ræða. Ekki fundust nákvæmar skýringar á hljóðunum en taldi lögregla í Kópavogi þau tengjast rúðu- og innbrotum í Smiðjuhverfinu um nóttina.
Frétt mbl.is: Rúðubrot og þjófnaður
Á mánudag í þessari viku fékk lögregla tilkynningu um að skothvellir hefðu heyrst á svæðinu samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var um nokkurra vikna gamalt atvik. Lögregla fór því á vettvang á mánudag og fann ummerki um að hleypt hefði verið af haglabyssu á grindverk fyrir utan húsið.
Þá liggur fyrir að skotið var á fólksbíl á bílastæði við Hjallakirkju úr haglabyssu þann 9. apríl síðastliðinn. Kirkjan er við hlið fjölbýlishússins Hlíðarhjalla 53.