Maður var í morgun sýknaður af refsikröfu í Héraðsdómi Reyjavíkur og gert að sæta réttaröryggisgæslu, en í febrúar sl. var hann ákærður fyrir að hafa orðið eiginkonu sinni að bana í íbúð þeirra í Stelkshólum í september sl.
Hinn 28. þess mánaðar fékk lögregla tilkynningu um að 26 ára kona væri látin á heimili sínu í Breiðholti. Eiginmaður konunnar, 29 ára, var handtekinn á vettvangi, þar sem grunur vaknaði samstundis um að andlát konunnar hefði borið að með saknæmum hætti.
Börn hjónanna, tveggja og fimm ára, voru heima þegar móðir þeirra lést en talið er að þau hafi verið sofandi.
Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald en síðar í öryggisgæslu á réttargeðdeild Landspítalans á Kleppi. Hann hafði glímt við andleg veikindi. Grunur lék á að hann hefði þrengt að öndunarvegi konu sinnar þannig að bani hlaust af.
Þinghald í málinu var lokað.