Systurnar Malín Brand og Hlín Einarsdóttir voru handteknar í gær vegna nýrrar kæru sem barst lögreglunni vegna tilraunar til fjárkúgunar. Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfestir í samtali við mbl.is að tveir aðilar hafi verið handteknir og þeim sleppt að loknum yfirheyrslum, en gefur ekki frekari upplýsingar um málið, sem hann segir vera í rannsókn.
Í Fréttablaðinu í morgun kemur hins vegar fram að um sé að ræða systurnar Malín og Hlín sem handteknar voru í Vallahverfi í Hafnarfirði síðasta föstudag vegna fjárkúgunarmáls gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Þannig hafi þær kúgað karlmann til að greiða sér 700 þúsund krónur, ella yrði hann kærður fyrir að hafa nauðgað Hlín.
Eins og fram hefur komið í frétt mbl.is lýsti Malín því yfir í fyrradag að hún hefði ekki sent bréf um kúgunina til Sigmundar Davíðs, heldur einfaldlega „blandast inn í málið út af systur sinni“. „Ég harma aðkomu mína að þessu máli. Mín mistök voru að sjálfsögðu að vera á staðnum í stað þess að fara aldrei með,“ sagði Malín um för sína í Vallahverfi, þar sem hún var handtekin ásamt systur sinni á leið að sækja það sem þær töldu vera fé frá Sigmundi Davíð.