Karlar víki fyrir konum 19. júní

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. mbl.is/Brynjar Gauti

Karlkyns þingmenn og varaþingmenn ættu að víkja sæti þannig að aðeins konur sitji á hátíðarþingfundi 19. júní þegar hundrað ár verða liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, lagði þetta til á þingi nú í morgun.

Steingrímur vísaði til hugmyndar Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að aðeins konur ættu sæti á þingi í tvö ár. Rifjaði hann upp að sjálfur hefði hann lagt til að konur stjórnuðu heiminum í fimmtíu ár á miklum kreppufundi eftir hrun.

Í þessu samhengi varpaði Steingrímur fram þeirri hugmynd að karlkyns þingmenn og varamenn eftir atvikum þannig að aðeins konur ætti sæti á þingi á hátíðarfundi Alþingis 19. júní. Nógu oft hefðu aðeins karlmenn átt einir sæti á þingi. Taldi hann að þetta myndi vekja athygli jafnvel langt út fyrir landsteinana.

„Tilbúinn er ég og skora á kollega mína sama kyns,“ sagði Steingrímur við góðar undirtektir úr þingsal.

Haraldur Einarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, kom næstur í pontu til að ræða annað mál en byrjaði á að taka fram að hann væri tilbúinn til að fara að tillögu Steingríms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka