KexReið 2015 er hjólreiðakeppni Kex Hostel og Kria Cycles og verður hún haldin í þriðja sinn á morgun.
„Keppnin hefst klukkan fjögur á morgun og rásmarkið er á Hverfisgötu beint fyrir ofan Kex Hostel. Þaðan er hjólað niður Hverfisgötu, beygt inn Ingólfsstræti, niður Skúlagötu, upp Barónsstíg og aftur á Hverfisgötu,“sagði Böðvar Guðjónsson, á Kex Hostel, í samtali við mbl.is.
Hjólaðir verða samtals þrjátíu kílómetrar og veitt eru verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í kvenna- og karlaflokki. „Núna eru skráðir til leiks 70 manns, karlar og konur. Veðurspáin er líka alveg til sóma þannig að við erum full tilhlökkunar fyrir KexReiðinni.“
Til að tryggja öryggi keppenda sem og annarra vegfarenda á keppnissvæði verða götulokanir og öryggisgæsla á keppnishringnum. Á meðan keppninni stendur verður skífum þeytt við Hverfisgötu 12 Veitingastað og Mikkeller & Friends Reykjavík bjóða gestum og gangandi Mikkeller Running Club Pale Ale.
„Það eru mjög veglegir vinningar í boði fyrir fyrstu þrjú sætin í karla- og kvennaflokki, til að mynda inneignir á veitingastaðinn á Kex, veitingastaðinn á Hverfisgötu 12 og gisting á Kex með sérherbergi, baði og morgunverði. Einnig verður dregið úr númerum þannig að allir eiga möguleika á að vinna.“ Eftir keppni verður slegið upp veislu. „Það verður party á pallinum á Kex Hostel þegar keppni lýkur, um klukkan fimm.“
Aðspurður sagðist Böðvar ekki ætla að taka þátt. „Nei, ég tek ekki þátt, hef verið svo óduglegur að æfa. En ég tek þátt að ári!“
Nánari upplýsingar: