Frumvarpið gengur ekki til nefndar

Frosti Sigurjónsson og Unnur Brá Konráðsdóttir eru í efnahags- og …
Frosti Sigurjónsson og Unnur Brá Konráðsdóttir eru í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. mbl.is/Golli

Frumvarp um undirbúning losunar gjaldeyrishafta sem lagt verður fram á þingi í kvöld þarf ekki að ganga til efnahags-og viðskiptanefndar eftir fyrstu og aðra umræðu, eins og kveðið er á um í þingskapalögum. Þetta kemur til vegna þess að nefndin leggur frumvarpið fram sjálf, og er meðferð hennar með það því lokið. Fundur fór fram í nefndinni klukkan fimm í dag.

Frétt mbl.is: Höftin hert til að liðka fyrir afnámi

„Málið verður lagt fram af efnahags- og viðskiptanefnd og kemur svo til fyrstu umræðu. Ég á ekki von á að því verði vísað til nefndar eftir hana, heldur gangi beint til annarrar umræðu,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis. Hann segir þó að hér sé ekki um neitt nýmæli að ræða. 

„Þetta er í raun frekar algengt, bæði í málum sem eiga að fara hratt í gegn og ekki. Nefndirnar flytja einnig ýmis mál sem eru ekki undir neinni pressu,“ segir Helgi. Hann telur ekki ólíklegt að frumvarpið í kvöld fari hratt í gegnum þingið. „Ég á von á því ef ekkert kemur upp á.“

Helgi Bernódusson segir fyrirkomulagið ekki óalgengt
Helgi Bernódusson segir fyrirkomulagið ekki óalgengt Morgunblaðið/Golli

Þingfundur hefst klukkan tíu í kvöld, en ríkisstjórnin mætti til fundar í Stjórnarráðinu klukkan sjö. Þingflokksfundir Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna fara allir fram næstu klukkustundina fyrir þingfundinn. 

Frétt mbl.is: „Við erum öll í sama bátnum“

Eins og fram kemur í frétt mbl.is er frum­varp­inu ætlað að þrengja höft­in í aðdrag­anda af­náms þeirra. Sam­kvæmt heim­ild­um er til­gang­ur­inn með þessu að stoppa upp í göt í tengsl­um við höft­in til þess að und­ir­búa af­nám þeirra. Árni Páll Árna­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, staðfest­ir að mark­mið frum­varps­ins sé að minnka sniðgöngu­áhættu vegna af­náms hafta. Samráðsnefnd um afnám hafta mun funda klukkan 10.30 í fyrramálið. 

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði í samtali við mbl.is í dag að samhugur væri um að klára málið og samvinna væri nauðsynleg þvert á flokka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert