Haftafrumvarp líklega afgreitt í nótt

Fundur hófst í efnahags- og viðskiptanefnd klukkan fimm.
Fundur hófst í efnahags- og viðskiptanefnd klukkan fimm. mbl.is/Golli

Frumvarp í átt að losun gjaldeyrishafta verður líklega afgreitt frá Alþingi í nótt eða snemma í fyrramálið. Samkvæmt heimildum mbl.is stendur til að ræða málið við þrjár umræður í kvöld og klára það fyrir opnun markaða í fyrramálið.

Frétt mbl.is: „Við erum öll í sama bátnum“

Fundur í efnahags- og viðskiptanefnd hófst nú klukkan fimm og síðan hefst þingfundur klukkan tíu í kvöld. Þetta staðfestir Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is og segir málið keyrt af stað á sunnudagskvöldi til þess að hægt sé að klára það fyrir opnun markaða.

Boðað hefur verið til ríkisstjórnarfundar í Stjórnarráðinu klukkan sjö. 

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins mun funda klukkan hálf níu í kvöld vegna málsins, þingflokkur Samfylkingarinnar klukkan hálf tíu og VG á sama tíma að sögn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, varaþingflokksformanns. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði í samtali við mbl.is að samhugur ríkti um málið. „Ég hef aldrei fundið fyr­ir nein­um sem vill ekki gera þetta eða vill tefja.“ 

Bjarkey segist í raun ekki hafa nægar forsendur til að taka afstöðu til málsins. „Maður veit ekki neitt ennþá, svo það er varla tímabært að tjá sig um það strax hvað þetta inniheldur.“ Boðað hafði verið til fundar í samráðshópi um afnám haftanna á morgun, en Bjarkey segir stöðuna bersýnilega breytta og ekki ljóst hvort af fundinum verði.

Frétt mbl.is: Klára málið fyrir opnun markaða

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG og nefndarmaður í efnahags-og viðskiptanefnd vildi ekkert gefa upp um efni nefndarfundarins og nefndarmaðurinn Vilhjálmur Bjarnason, sem var nýkominn frá Vestmannaeyjum þegar mbl.is náði tali af honum, varðist allra frétta af málinu.

Bjarni Benediktsson kynnti áætlun um losun haftanna á ríkisstjórnarfundi í fyrradag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert