Samhugur er þvert á flokka um gjaldeyrishaftafrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi. Þrátt fyrir það er ekki einhlít sátt um öll atriði málsins, en Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, þingmaður flokksins og Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndu aðgerðir stjórnvalda um margt.
Össur Skarphéðinsson spurði hvort ástæða þess að frumvarpið um breytingar á lögum um gjaldeyrismál kæmi fram með þeim hraða sem raun ber vitni væri vegna „leka úr herbúðum ríkisstjórnarinnar“ eins og hann orðaði það.
Steingrímur sagði að á fundi efnahags- og viðskiptanefndar hefði Seðlabankinn sagt eina af ástæðum þess að frumvarpið væri lagt fram í þessum flýti, og að Alþingi væri í fyrsta skipti kallað saman á sunnudegi, væri leki sem hefði komið í ljós fyrir helgi.
„Með þessu er torfan heldur farin að gildna undir DV,“ sagði Össur, því það hefði orsakað að nú væri í fyrsta skipti fundað á sunnudegi.
Steingrímur sagði á hinn bóginn að þær glufur sem væri verið að loka með frumvarpinu hefðu verið þekktar um nokkurt skeið og fullt tilefni til að loka þeim á einhverjum tímapunkti.
Árni Páll sagði það ámælisvert að ríkisstjórnin hefði ekki kallað stjórnarandstöðuna að borðinu.
„Mér þykir skrýtinn bragur á því að stjórnin ætli að kynna tillögur fjölmiðlum fyrst á morgun áður en þær eru tilkynntar Alþingi. Það er eðlileg krafa að þjóðþinginu sé sýnd sú virðing að þetta mikilvæga mál sé borið undir það áður,“ sagði Árni í ræðu sinni.
Steingrímur talaði um lagasetningu í tíð fyrri ríkisstjórnar í mars 2012, þar sem hann var fjármálaráðherra. Sagði hann nokkur líkindi vera með núverandi frumvarpi og þeim lögum sem sett voru þá, og talaði um „næst mikilvægustu lagasetningu þjóðarinnar“. Í þeim lögum var hliðstætt ákvæði þeim sem nú eru sett fram, en lokað var sniðgönguleið sem margir nýttu sér að sögn Steingríms. Hinn hluti lagasetningarinnar gekk út á að færa eignir föllnu bankanna inn fyrir gjaldeyrishöftin. Hann sagði þetta vera forsendu alls sem unnist hefði í málaflokknum undanfarin ár, en gagnrýndi andstöðu núverandi stjórnarflokka við málið á sínum tíma.
Þá vildi Steingrímur að forsætisráðherra bæði stjórnarandstöðuna afsökunar á ásökunum í garð tiltekinna stjórnarandstöðuliða um að leka upplýsingum. Þá ætti hann sérstaklega að biðja Árna Pál afsökunar.
„Ætti hann frekar að komast til botns í því hvernig skaðlegur leki gat orðið úr því lokaða ferli sem átti að vera um meðferð málsins,“ sagði Steingrímur. Ítrekaði hann að lekinn væri alvarlegur og skaðlegur. Gagnrýndi hann einnig að ekki hefði verið boðaður fundur hjá samráðshóp um losun gjaldeyrishafta síðustu sex vikur.
Guðmundur Steingrímsson sló á létta strengi og ræddi um eftirvæntingu vefmiðla fyrir þingfundinum. Sagði hann þær fjölskyldur sem hefðu „ákveðið að poppa og fylgjast með eflaust verða fyrir vonbrigðum, enda ekki um jafnstór tíðindi að ræða og margir héldu.“