Mikill eldur er á Selfossi. Eldurinn kviknaði í rusli við Set, plastverksmiðju á Selfossi. Eldurinn brennur ekki í verksmiðjunni sjálfri, en nærliggjandi byggingar eru í mikilli hættu. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur sent mikinn mannafla á staðinn.
Örn Einarsson, eigandi Sets, er erlendis. „Þetta er bara lagervara sem er að brenna. Eina sem ég veit er að það sást til einhverra drengja og talið er að þetta sé íkveikja,“ segir hann.
Örn segir að um verðmætar vörur sé að ræða og telur hann að tjóni hlaupi á milljónum. „Þetta er gríðarlega mikill eldmatur. Þetta eru einangruð plaströr í stórum stíl.“
Sigmundur Sigurgeirsson, fréttaritari og ljósmyndari á Selfossi, segir að um „fáránlega mikinn“ eld sé að ræða. Þarna sé gríðarlegt magn af plaströrum og fólk finni fyrir hita í tugmetra fjarlægð.
Lögregla segir sprengihættu vera á svæðinu, og er fólki því gert að halda sig frá svæðinu. Vitni sáu ungmenni hlaupa frá svæðinu rétt áður en eldurinn kviknaði, þannig að grunur er um íkveikju.
Uppfært 19:21 Sjónarvottur segir að reykurinn sé orðinn grárri, sem gæti bent til að eldurinn sé í rénum.
Uppfært 19:38 Samkvæmt heimildum mbl.is hefur sést til sjúkrabíla á ferð í grennd við svæðið. Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur ekki borist nein tilkynning um slys á fólki.
Uppfært 19:40 Búið er að ráða niðurlögum eldsins og slökkvilið er nú að ganga frá dælum. Vélsmiðja Suðurlands er óskemmd, en óttast var að hún væri í hættu vegna eldsins. Samkvæmt lögreglunni á Selfossi urðu engin slys á fólki. „Við höfum engar meldingar fengið um að fólk hafi slasast. Búið er að ná tökum á eldinum og verið að slökkva glæður,“ segir fulltrúi lögreglunnar í samtali við mbl.is.