„Við erum öll í sama bátnum“

Helgi Hrafn Gunnarsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata, býst við miklu magni upplýsinga þegar hann kemur á þingfund í kvöld. „Útfærsluatriði hafa verið svolítið á reiki og ég vona að þau komist á hreint þannig að það sé hægt að ræða eitthvað með vissu. Það hefur vantað að vita hvað menn nákvæmlega ætla að gera,“ sagði Helgi í samtali viði mbl.is.

Þingfundur hefst á Alþingi klukkan tíu í kvöld þar sem ræddur verður undirbúningur aðgerðaráætlanar um afnám fjármagnshafta. 

Frétt mbl.is: Klára málið fyrir opnun markaða

Komið hefur fram í fréttum að ætlunin sé að klára málið fyrir opnun markaða. „Ég þori ekki að fara með hvað aðrir ætla sér en það er ljóst að menn vilja nýta tímann mjög vel, annars væru þeir ekki að boða til fundar núna. Það er mín tilfinning að það sé tímapressa, allavega á einhverjum þáttum, sem er skiljanlegt því þegar það kemur að gjaldeyrishöftum er tíminn ein lykilbreytan.“

Ekki óeðlileg tímasetning

Honum þykir tímasetning þingfundar ekki óeðlileg. „Ekki miðað við tilefnið í sjálfu sér. Þegar loksins kemur eitthvað sem allir vilja ólmir tala um og málið er afskaplega mikilvægt og snýst um hagsmuni allrar þjóðarinnar.“

Helgi segir að samhugur ríki um að klára þetta mál. „Klárlega. Ég hef aldrei fundið fyrir neinum sem vill ekki gera þetta eða vill tefja. Ég lít svo á að þetta sé sameiginlegt verkefni okkar allra að gera þetta á sem farsælastan hátt. Við erum öll í sama bátnum þegar kemur að þessu máli.“

Hann leggur ríka áherslu á að allir verði að vinna saman, hvaða flokki sem fólk tilheyrir. „Við verðum núna að gleyma öllu stjórnar- og stjórnarandstöðu dæmi. Því miður þá er það þannig að það viðhorf þarf að ríkja beggja megin svo hinir séu velkomnir. Ég legg höfuðáherslu á að þetta sé eitthvað sem við þurfum að gera; að vinna með fólki sem við erum ekki vön að vinna með af einhverjum ástæðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert