„Þetta fór allt vel, það urðu engin slys á fólki eða skemmdir á öðrum húsum,“ segir Bergsteinn Einarsson, framkvæmdastjóri Sets á Selfossi, en í gær logaði gríðarlega mikill eldur á lóð félagsins. Hættuleg og mengandi efni brunnu og börðust slökkviliðsmenn við „gríðarlegt afl“.
Bergsteinn var staddur í Danmörku þegar eldurinn kviknaði en er nú á heimleið. Hann hefur hins vegar verið vel upplýstur um stöðuna og á hann von á því að funda með fulltrúum tryggingafélaga í dag.
„Þetta er gríðarlegur eldsmatur sem þarna brann á stuttum tíma, og mjög nálægt íbúðabyggð. Þetta hefur engin áhrif á starfsemina, en þetta er - fyrst og fremst alltaf þegar svona gerist - óþægilegt á meðan á því stendur,“ segir Bergsteinn í samtali við mbl.is.
Spurður nánar út í það sem brann, segir hann að það hafi verið vörulager, svokallaður millilager, sem sé geymdur til lengri tíma. Vörurnar hafi verið af ýmsum toga, m.a. einangruð plaströr og fráveiturör. „Þetta er polyethylene- og polyurethane-efni sem brenna með miklum hita,“ segir Bergsteinn. Aðspurður segir hann að þetta séu mjög mengandi efni.
Bergsteinn þakkar Brunavörnum Árnessýslu fyrir vel unnin störf. „Þetta eru efnaeldar sem eru ekkert algengir. Það er ekkert mikill iðnaður á Íslandi. Þeir eru búnir að fást þarna við gríðarlegt afl sem þessi eldur er,“ segir hann.
Bergsteinn hefur ekki nákvæma tölu á því hversu mikið tjónið hafi verið í krónum talið, en líklega sé það á bilinu 10-15 milljónir króna. Það eigi hins vegar eftir að koma í ljós.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er talið að eldurinn hafi kviknaði í út frá íkveikju, en talið er að börn hafi þarna verið að fikta með kveikjara.
Spurður út í það segir Bergsteinn: „Við erum búnir að taka gríðarlega mikið á öryggismálum síðan 2012, þá brann hjá okkur ein bygging út frá rafmagni, og við höfum verið í verkefni að uppfylla allskonar kröfur síðan, bæði umgengni, reglur, vöktun og annað slíkt. En það þarf kannski orðið enn þá meira - vöktun á öll svæði. Þetta eru hlutir sem gerast og geta gerst,“ segir hann.
Lögreglan rannsakar nú málið og var slökkviliðið með vakt á svæðinu í nótt til að tryggja að eldurinn tæki sig ekki upp á ný. Það hefur hjálpað til að rignt hefur á svæðinu í dag.