Rannsókn á eldsvoðanum á Selfossi í gær er að ljúka en búið er að upplýsa að eldurinn kviknaði í kjölfar fikts barna með kveikjara. Ekkert mannvirki varð eldinum að bráð, en hann náði að læsa sig í rörastafla á auðri lóð.
Að sögn Þorgríms Óla Sigurðssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Selfossi, voru það tveir níu ára strákar sem kveiktu eldinn. „Þeir höfðu bara fundið þarna kveikjara úti á götu og voru að fikta og svo fór þetta úr böndunum.“
Þorgrímur ítrekar að um slys hafi verið að ræða. Eins og venja er hafði lögregla samband við barnaverndaryfirvöld þegar ljóst varð hvernig í málum lá, og framhaldið er í höndum þeirra og foreldra drengjanna.
Að sögn Þorgríms byrjaði eldurinn í spýtnarusli og barst síðan í stafla af plaströrum, sem útskýrir hinn mikla og svarta reyk sem lagði frá svæðinu. Hann segir um að ræða hólka sem m.a. séu notaðir utan um hitaveiturör.
Vakt var á svæðinu í nótt til að tryggja að eldurinn tæki sig ekki upp á ný.