Samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar um losun fjármagnshafta munu lífeyrissjóðir fá að fjárfesta fyrir tíu milljarða króna á ári í erlendum eignum til ársins 2020 sem jafngildir fjórðungi af hreinu innstreymi þeirra á tímabilinu. Heimildin verður lögfest fyrir lok ársins sem skref í afnámi fjármagnshafta og verður mögulega aukin eftir því sem afnáminu vindur fram.
Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Benedikts Gíslasonar og Sigurðar Hannessonar, vafaformanna framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta, á blaðamannafundi í Hörpu í hádeginu.
Þeir sögðu að aukin erlend fjárfesting lífeyrissjóðanna stuðlaði að auknum viðskiptaafangi og teldist því þjóðhagslega hagkvæm.
Hreint árlegt innstreymi íslenska lífeyrissjóðakerfisins nemur fjörutíu milljörðum króna á ári.
Það er deginum ljósara að mikil uppsöfnuð þörf er hjá almenningi, íslenskum fyrirtækjum og lífeyrissjóðum til að fjárfesta erlendis eftir sjö ára fjármagnshöft. Fram kom í máli tvímenninganna að að loknum aðgerðum stjórnvalda gagnvart slitabúum og aflandskrónueigendum yrði slakað á höftum fyrst og fremst til að auka erlendan sparnað og styrkja samkeppnishæfni.
Varúðarreglur og rýmri magntakmarkanir myndi taka við af fjármagnshöftum.
Þeir bentu einnig á að öll vöru- og þjónustuviðskipti yrðu áfram undanþegin fjármagnshöftum eins og verið hefur.
Hvað varðar einstaklinga, þá stendur til að veita víðtæka rýmkun á reglum um höftin á haustþingi með tilslökunum sem munu hafa áhrif á alla innan haftanna. Fyrirtæki fá síðan heimildir til beinna fjárfestinga erlendis.
Almenna reglan verður sú að gjaldeyrisviðskipti einstaklinga verða frjáls nema þau séu sérstaklega bönnuð vegna magntakmarkana.