Ríkisstjórnin kynnti í dag fordæmalausar aðgerðir sem hún hyggst grípa til í viðleitni sinni til að aflétta fjármagnshöftum sem hafa verið við lýði hér á landi í bráðum sjö ár, nánar tiltekið 2.383 daga.
Aðgerðirnar miða allar að því að lyfta höftunum án þess að íslenskur almenningur taki á sig auknar byrðar. Með öðrum orðum vonast stjórnvöld til þess að með afnámsáætlun sinni verði komið í veg fyrir að þrýstingur stóraukist á krónuna, með tilheyrandi efnahagslegum óstöðugleika, þegar höftin verða afnumin.
Stjórnvöld hafa þurft að glíma við tvö stór vandamál: annars vegar krónueignir slitabúa föllnu bankanna og aflandskrónur í eigu útlendinga hins vegar.
Á árunum fyrir hrun bankanna haustið 2008 söfnuðust upp gríðarlegir fjármunir í íslenska hagkerfinu. Við fall bankanna skapaðist mikill þrýstingur á að fara með þessa fjármuni sem fyrst úr landi, en til að bregðast við því þótti nauðsynlegt að setja á fjármagnshöft. Þessir fjármunir bíða þess enn að komast út úr landinu.
Heildareignir slitabúa föllnu bankanna, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, nema um 2.200 milljörðum króna. Innlendar eignir þeirra eru 900 milljarðar en þær erlendu um 1.300 milljarðar. Þær eru í erlendri mynt og hafa því ekki áhrif á innlendan gjaldeyrismarkað og þar með gengi krónunnar, ólíkt innlendu eignunum.
Af þessum 900 milljarða innlendu eignum eiga slitabúin um 500 milljarða króna í krónueignum og um 400 milljarða í öðrum innlendum eignum.
Hvað varðar aflandskrónurnar, þá nema þær um 300 milljörðum króna. Um er að ræða verðmæti í íslenskum krónum eða ávísun á slík verðmæti, svo sem verðbréf, í eigu útlendinga. Gert er ráð fyrir að aflandskrónueigendurnir svokölluðu vilji skipta þessum krónum, sem verða að teljast nokkuð auðseljanlegar, í erlendan gjaldeyri.
Heildarumfang vandans, sem við er að glíma, er því samtals 1.200 milljarðar króna. Í fyrsta lagi krónueignir slitabúa föllnu bankanna að fjárhæð 500 milljarða, í öðru lagi kröfur slitabúanna í erlendri mynt gagnvart innlendum aðilum að fjárhæð 400 milljarða og loks aflandskrónur í eigu útlendinga að fjárhæð 300 milljarða.
Áætlun stjórnvalda, sem kynnt var í dag, miðar að því, eins og áður sagði, að koma í veg fyrir að þessar eignir, 1.200 milljarðar, flæði inn á gjaldeyrismarkaðinn og skapi þannig þrýsting á krónuna þegar höftunum verður lyft. Oft hefur verið talað um snjóhengju í þessu sambandi, að „snjóhengjan“ vilji komast út úr hagkerfinu.
En af hverju er þetta vandamál?
Í örstuttu máli er svarið á þá leið að Ísland á ekki gjaldeyri til að skipta þessum krónum, sem vilja fara úr landi, í. Þrátt fyrir að hreinn gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands hafi vissulega aukist að undanförnu, þá er hann dropi í hafið miðað við vænt útflæði við afnám hafta. Óskuldsettur gjaldeyrisforði bankans er um sjötíu milljarðar, sem er aðeins um 6% af snjóhengjunni svonefndri.
Snjóhengjan vill sem sagt komast út úr hagkerfinu sem að öllu óbreyttu myndi valda gríðarlegu gengisfalli krónunnar og verri lífskjörum þjóðarinnar.
Í raun má segja að lausn stjórnvalda sé þríþætt.
Aðgerðin beinist í fyrsta lagi að slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja. Á fundinum í dag kynntu stjórnvöld svokölluð stöðugleikaskilyrði sem slitabú Glitnis, Kaupþings og Landsbankans þurfa að uppfylla til að geta fengið undanþágu frá gjaldeyrishöftunum og klárað þar með nauðasamninga sína. Ljúki slitabúin nauðasamningum fyrir lok ársins, þá geta þau fengið að flytja fjármagn úr landi að því gefnu að þau uppfylli þessi skilyrði. Að öðrum kosti leggst á þau stöðugleikaskattur.
Til að uppfylla stöðugleikaskilyrðin, sem eru ófrávíkjanleg, þurfa slitabúin að greiða svokallað stöðugleikaframlag í ríkissjóð.
Fram kom í dag að hópar stærstu kröfuhafa slitabúa föllnu bankanna hefðu allir lagt til stöðugleikaframlag til stjórnvalda. Framlagið er ólíkt á milli búanna en framkvæmdahópur stjórnvalda um losun hafta staðfesti í kjölfarið að tillögur kröfuhafa búanna væru í samræmi við stöðugleikaskilyrðin. Lagði hópurinn til að veitt yrði undanþága frá höftunum á grundvelli tillaganna.
Hér er hægt að skoða tillögurnar:
Tillögur slitastjórnar Glitnis
Tillögur slitastjórnar Kaupþings
Tillögur slitastjórnar Landsbankans
Lausnirnar fela sem sagt í sér að slitabúin gefi eftir hluta af innlendum eignum sínum til að fá erlendu eignir sínar greiddar út.
Þó ber að hafa í huga að aðeins hluti kröfuhafanna er að baki tillögunum. Enn á eftir að taka afstöðu til þeirra á kröfuhafafundi hvers slitabús fyrir sig. Þar þarf 60% kröfuhafa að samþykkja þær.
Fari svo að þessar tillögur verða ekki samþykktar á kröfuhafafundi, þá gæti farið svo að slitabúunum takist ekki að uppfylla stöðugleikaskilyrðin fyrir lok ársins. Það þýðir að 39% stöðugleikaskattur mun leggjast á heildareignir búanna. Er áætlað að tekjur ríkissjóðs af þessum skatti geti orðið 682 milljarðar króna að teknu tillti til frádráttarheimildar.
En sama hvor leiðin verður valin, stöðugleikaframlag eða stöðugleikaskattur, þá er deginum ljósara að gríðarlegir fjármunir munu renna til ríkisins. Ráðamenn þjóðarinnar hafa lagt mikla áherslu á að fjármunirnir verði einungis nýttir til að greiða niður níðþungar skuldir ríkisins, enda hefur ríkissjóður borið gríðarmikinn kostnað af hruni fjármálakerfisins. Gert er ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs minnki um allt að þriðjung og að vaxtagjöld hans dragist saman með verulegum hætti. Í samtali við mbl.is benti forsætisráðherra til að mynda á að vaxtagjöld ríkisins gætu jafnvel lækkað um 45 milljarða króna. Það munar um minna.
Eins og fram hefur komið skapa aflandskrónurnar, sem nema um 300 milljörðum króna, töluverðan vanda við afnám hafta. Þar eru enda um að ræða auðseljanlegar krónueignir í eigu útlendinga sem hefðu vafalaust mikil áhrif á gengi krónunnar ef reynt yrði að losa þær allar út úr hagkerfinu í einu.
Til stendur að leysa þennan vanda með uppboði á gjaldeyri og sölu skuldabréfa í íslenskum krónum og evrum með endurgreiðsluferli sem samræmist greiðslujöfnuði landsins.
Gjaldeyrisuppboð Seðlabankans, sem og aðrar aðgerðir bankans, hafa nú þegar helmingað umfang vandans frá árinu 2010, úr 600 milljörðum í um 300 milljarða. Fram kom á fundinum í dag að tíu fagfjárfestar ættu meirihluta þessara króna.
Eigendur aflandskróna geta valið á milli þriggja kosta: að greiða viðbótargjald fyrir útgöngu úr gjaldeyrishöftum á gjaldeyrisuppboði í haust, að fjárfesta í ríkisskuldaskuldabréfum til lengri tíma, tuttugu ára og loks að geyma fjármunina á læstum reikningi til langs tíma án vaxta.
Er uppboðsaðferðin hönnuð til að koma í veg fyrir svokallaðar eftirlegukindur á meðal aflandskrónueigenda. Eigendurnir verða auðvitað að hafa í huga að ef þeir taka ekki þátt og ganga ekki að þessum afarkostum, ef svo má segja, þá verða þeir að geyma peningana sína á vaxtalausum reikningi. Það er sannarlega hvati til staðar.
Þá beinast aðgerðir stjórnvalda loks að raunhagkerfinu; einstaklingum og fyrirtækjum hér á landi. Það er ljóst að eftir sjö ár í höftum er mikil uppsöfnuð þörf hjá almenningi, fyrirtækjum og sérstaklega lífeyrissjóðunum til að dreifa eignum sínum og fjárfesta erlendis. Heimildir til almennra viðskipta með gjaldeyri verða rýmkaðar og verður almenna reglan sú að gjaldeyrisviðskipti einstaklinga verða frjáls nema þau séu sérstaklega bönnuð vegna magntakmarkana. Fólk og fyrirtæki ættu því að geta loks átt í eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum.
Á fundinum var það orðað svo að við myndum ekki finna fyrir neinum höftum.
Hvað varðar lífeyrissjóðina og fjárfestingarþörf þeirra, þá munu þeir fá að fjárfesta fyrir tíu milljarða króna á ári í erlendum eignum til ársins 2020. Um fjörutíu milljarðar króna flæða inn í íslenska lífeyrissjóðakerfisins á hverju ári, nettó, og jafngilda þessir tíu milljarðar fjórðungi af innstreyminu á tímabilinu. Þessi heimild verður fest í lög fyrir lok ársins og verður hún mögulega aukin eftir því sem afnáminu vindur fram.
Stærstu skrefin í að losa fjármagnshöftin hafa verið stigin á undanförnum tveimur árum. Á haustmánuðum ársins 2013 samþykkti ráðherranefnd um efnahagsmál breytingar á skipulagi vinnunnar og var í kjölfarið skipaður sex manna ráðgjafahópur til að koma með tillögur að lausn málsins.
Í byrjun júlí 2014 samdi fjármála- og efnahagsráðuneytið við lögmannsstofuna Cleary Gottlieb Steen & Hamilton LLP, ráðgjafafyrirtækið White Oak Advisory LLP og Anne Krueger, prófessor í hagfræði við John Hopkins-háskólann, um að vinna með stjórnvöldum að verkefninu. Jafnframt voru fjórir sérfræðingar ráðnir í framkvæmdahóp til að vinna með fyrrgreindum ráðgjöfum. Fulltrúar frá Seðlabankanum komu síðan inn í framkvæmdahópinn í janúar á þessu ári.
Sú nálgun við losun haftanna, sem þessi heildaráætlun snýr að, byggist á tillögu framkvæmdahópsins og þeirri ítarlegu greiningarvinnu sem hópurinn hefur unnið í samráði við ráðgjafa stjórnvalda, Seðlabanka Íslands og fleiri.
Viðræður hafa átt sér stað við kröfuhafana, eins og áður var fjallað um, og virðist stór hluti þeirra nú þegar hafa samþykkt að undirgangast stöðugleikaskilyrðin svonefndu.
Frumvarp til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki