„Ég sá þá ekki nógu vel, en það voru peyjar, að minnsta kosti tveir, ef ekki þrír,“ segir Ingvi Sigurðsson, íbúi á Selfossi. Hann varð vitni að því þegar kveikt var í á Selfossi í gærkvöld.
„Þetta var svakalegur eldur og hvað það var fljótt að blossa upp. Þegar ég kem að girðingunni og kalla á þá [strákana sem kveiktu í] og bara meðan ég hringi í 112 þá sé ég að rörin eru byrjuð að bráðna. Þetta var svo rosalega fljótt að gerast að það var alveg ótrúlegt,“ segir hann.
„Þetta var bara smáeldur sem ég sá glitta í þarna á milli rörahrúga þegar ég hrópaði til strákanna hvað þeir væru eiginlega að gera. Þar með stukku þeir náttúrlega í burtu,“ segir Ingvi. „Þeir hurfu alveg með það sama.“
Hann segir fjölda skemmdarverka hafa verið unninn á Selfossi undanfarnar vikur. Rúður hafi verið brotnar, lyftarar teknir ófrjálsri hendi og fleira.
„Þetta er algjört vandamál sem verður sko að stoppa.“
Frétt mbl.is Myndband af brunanum á Selfossi úr dróna