Tillögurnar í samræmi við skilyrðin

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á blaðamannafundinum …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á blaðamannafundinum í Hörpu í dag. mbl.is/Golli

Framkvæmdastjórn um losun fjármagnshafta hefur staðfest að tillögur kröfuhafa Glitnis, Kaupþings og Landsbankans um að gangast að stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda séu í samræmi við þann ramma sem stýrihópur um losun hafta hafði samþykkt.

Mælir framkvæmdastjórnin með því að þeim verði veitt undanþága frá gjaldeyrishöftum á grundvelli tillögu sinnar.

Ef Seðlabanki Íslands samþykkir að veita undanþágurnar þá munu þær eignir sem eru eftir í slitabúunum ekki lengur sæta gjaldeyrishöftum og geta slitastjórnirnar þá lokið nauðasamningum.

Þó ber að hafa í huga að fulltrúar stærstu kröfuhafanna í hverju slitabúi fyrir sig lögðu tillögurnar fram. Enn á eftir að samþykkja þær á kröfuhafafundi.

Þetta kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins.

Þar segir jafnframt að meðlimir framkvæmdashópsins og ráðgjafar þeirra hafi haldið röð upplýsingafunda undanfarna tvo mánuði, meðal annars með fulltrúum lítils hóps fjárfesta sem eiga verulegar kröfur í bú þriggja stóru íslensku bankanna sem urðu greiðsluþrota árið 2008, Kaupþingi, Glitni og Landsbankanum.

Framkvæmdahópurinn heyrir undir stýrinefndina um afnám gjaldeyrishafta sem skipuð er fjármálaráðherra, seðlabankastjóra og fulltrúm forsætisráðuneytisins.

Á þessum fundum með kröfuhöfum slitabúanna ræddi framkvæmdahópurinn fyrstu tillögur sínar til stýrinefndarinnar um það hvernig gjaldeyrishöftin – að svo miklu leyti sem þau hafa áhrif á slitabú þriggja stóru föllnu bankanna – gætu verið afnumin.

Framkvæmdahópurinn útskýrði að innlendar eignir búanna (að mestu í íslenskum krónum) ógnuðu greiðslujöfnuði Íslands. Framkvæmdahópurinn greindi frá því að hann íhugaði að leggja það til að allar eignir slitabúanna þriggja gætu, í kjölfar nauðasamninga sem staðfestir væru af íslenskum dómstólum, verið greiddar út til kröfuhafa í slitameðferðunum í kjölfar greiðslu hvers bús á stöðugleikaskatti, sem innheimtur skyldi einu sinni, að því er segir á vef ráðuneytisins.

Hafi ekki áhrif á greiðslujöfnuð

Fyrstu ráðleggingar framkvæmdahópsins höfðu að geyma greiningu fyrirhugaðra lagabreytinga með það í huga að greiða fyrir gerð nauðungasamninga fyrir búin. Samkvæmt frumgreiningu framkvæmdahópsins þyrfti að setja 37% stöðugleikaskatt á heildareignir hvers bús (eins og þær voru metnar við lok júní 2015) til að ná fram því markmiði að hlutleysa þá ógn sem að greiðslujöfnuði stafaði, með frádrætti frá heildareignum fyrir 45 milljarða íslenskra króna fyrir hvert bú, sem myndi færa virka skattprósentu í 35%.

Tillagan sem var til skoðunar hjá framkvæmdahópnum myndi einnig gera búunum kleift að nota hluta eigna sinna í langtímafjárfestingar á Íslandi. Slíkar fjárfestingar gætu lækkað skattstofn bús og lækkað þannig raunskattprósentu stöðugleikaskattsins eins og hann yrði lagður á búið. Þegar skatturinn hefði verið greiddur gætu búin greiðlega ráðstafað eignunum sínum og greitt þær út, og hægt væri að greiða stöðugleikaskattinn í hvaða gjaldeyri sem búið kysi, þar með talið íslenskum krónum.

Þá hefur framkvæmdahópurinn tekið við tillögum frá kröfuhöfum sem sótt hafa þessa fundi um valfrjálsar ráðstafanir að þeirra frumkvæði sem gerðar eru með það í huga að hlutleysa þá ógn sem að greiðslujöfnuði stafar vegna innlendra eigna í búunum. Í þessum tillögum er íhugað að bregðast við þeirri ógn bæði með greiðslu stöðugleikaframlags ásamt öðrum ráðstöfunum sem ætlað er draga úr útflæði króna sem hafa verið fastar í gjaldeyrishöftum og efla gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands.

Tillögur slitastjórnar Glitnis

Tillögur slitastjórnar Kaupþings

Tillögur slitastjórnar Landsbankans

Frá fundinum í Hörpu í dag.
Frá fundinum í Hörpu í dag. mbl.is/Golli
Glitnir.
Glitnir. mbl.is/Friðrik Tryggvason
Kaupþing banki.
Kaupþing banki. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert