Börn geta borið skaðabótaábyrgð

Mynd/Sigmundur Sigurgeirsson

Börn geta borið bótaábyrgð á afbrotum sínum hvort sem þau eru sakhæf eða ekki. Þetta kemur fram á vef umboðsmanns barna, en margir hafa velt þessari spurningu fyrir sér í ljósi meintrar íkveikju ungra drengja á geymslusvæði verksmiðjunnar Sets á Selfossi á sunnudaginn.

Samkvæmt hegningarlögum verða börn sakhæf við 15 ára aldur og geta því verið dæmd til að greiða sektir vegna afbrota sem þau hafa framið, jafnvel þó þau verði ekki fjárráða fyrr en við 18 ára aldur. 

Börn yngri en 15 ára geta hins vegar líka borið bótaábyrgð á afbrotum sínum. Ef almenn skilyrði skaðabótaábyrgðar eru fyrir hendi geta þau þurft að greiða skaðabætur þeim sem misgert var við. Hefur til dæmis 10 ára barni verið dæmt skaðabótaskylt fyrir dómi. Ræðst þá skaðabótaábyrgðin af því hvort ætla megi að barn á sama aldri og tjónvaldur hafi skilið að um hættulega hegðun hafi verið að ræða, sem líkleg séu til að valda tjóni.

Foreldrar barna eru ekki látin bera ábyrgð á skaðaverkum sem börn þeirra vinna nema um saknæman eftirlitsskort hafi verið að ræða.

Segir á vef umboðsmanns að fjölskyldutryggingar foreldra nái oft til skaðaverka barna en ef barn veldur tjóni af stórkostlegu gáleysi eða ásetningu, getur tryggingarfélagið beint endurkröfu að barninu. Nefnir umboðsmaður sem dæmi um þetta þjófnað og umferðarlagabrot. 

Börnum verður ekki refsað fyrir hegningarlagabrot

Börnum yngri en 15 ára verður ekki refsað fyrir hegningarlagabrot samkvæmt almennum hegningarlögum. Er það hlutverk barnaverndarnefndar að taka á afbrotum barna fram að 15 ára aldri. Þegar lögreglan rannsakar meint brot ólsakhæfra barna er markmið lögreglunnar ekki að undirbúa mál fyrir ákæruvaldið heldur að rannsaka til hlítar alla þætti brotsins. Er hlutverk lögreglu því fremur eins konar hjálpar- eða aðstoðarhlutverk við börnin og fjölskyldur þeirra, eftir því sem kemur fram á vef umboðsmanns. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert