Fjallað um myndirnar í The Independent

Gula myndin þýðir að maður þekki einhvern sem hefur orðið …
Gula myndin þýðir að maður þekki einhvern sem hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi en sú appelsínugula þýðir að maður hafi sjálfur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Samsett mynd

Myndir sem íslensk kona hannaði hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum síðustu daga og er umræða um þær nú komin út fyrir landssteinana. Tilgangur myndanna er að myndgera vandann sem nauðgunarmenning er á Íslandi og sýna hversu marga kynferðisofbeldi hefur snert og hafa fjölmargir notað myndirnar sem forsíðumyndir á Facebook.

Fjallað er um myndirnar á breska fréttavefnum The Independent í kvöld. Í grein blaðakonunnar Bethan McKernan er sagt frá myndunum og átakinu #þöggun sem hefur verið áberandi á samfélagsmiðlum hér á landi undanfarnar vikur. 

Átakið #þöggun hófst á lokaða Facebook hópnum Beauty Tips en þar hafa konur og stúlkur skipts á reynslusögum af kynferðisofbeldi síðustu vikur. Edda Ýr Garðarsdóttir er ein þeirra sem hreifst af hugrekki meðlima Beauty Tips og langaði að taka þetta skrefinu lengra með því að myndgera vandann og gerði hún það með aðstoð vinkonu sinnar, Jóhönnu Svölu Rafnsdóttur, hönnuði.

Jóhanna hannaði tvær myndir sem hægt er að nota sem forsíðumynd á Facebook. Gula myndin þýðir að maður þekki einhvern sem hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi en sú appelsínugula þýðir að maður hafi sjálfur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. „Við vildum myndgera þetta og hafa þetta sýnilegt. Það verður örugglega svolítil opinberun og jafnvel áfall fyrir fólk að sjá hversu margir hafa lent í kynferðislegu ofbeldi,“ sagði Edda í samtali við mbl.is fyrr í vikunni. Þar kom jafnframt fram að átakið hafi nú þegar vakið athygli í Danmörku og Noregi og nú lítur út fyrir að Bretland sé næst í röðinni.

Í grein McKernan eru myndirnar birtar og sagt frá átakinu #þöggun. Í greininni er sagt frá því að Ísland sé besti staður heims til að vera kona. „En nýtt átak sýnir að það er enn verk að vinna,“ skrifar McKernan. 

Fyrri frétt mbl.is:

Átakið vakið athygli á Norðurlöndum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka