Flugstöðvarfljóðið kom aldrei inn í landið

Horft yfir brottfararsalinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík.
Horft yfir brottfararsalinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík. Sigurgeir Sigurðsson

Mál erlendrar konu sem dvaldi um vikuskeið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur vakið mikla athygli og verið borið saman við kvikmyndina The Terminal. Aðalpersóna The Terminal sat föst á flugvelli í New York þar sem hún hafði engan ríkisborgararétt en konan, sem er á fimmtugsaldri, hefur bandarískan ríkisborgararétt, næg fjárráð og virtist að auki við hestaheilsu.

Frétt mbl.is: Bjó í Leifsstöð í viku

Konan hafði verið á ferðalagi um Evrópu þegar leið hennar lá til Íslands. Konan er ekki talin hafa farið inn í landið eftir að hún lenti og líklegast sá hún aldrei meira af því en það sem greina má í gegnum glugga flugstöðvarbyggingarinnar.

Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir það ekki hafa komið fyrir áður að einhver hafi dvalist svo lengi í Leifsstöð, hvað þá svæðinu innan við öryggisleitina.

„Það var gjarnan sem fólk svaf á almenningssvæði inni í flugstöðinni hér á árum áður þar til tekið var fyrir það, var jafnvel með tjald og hjól við hliðina á sér. En þetta var öðruvísi. Það er líka oft sem auralaust fólk er að dúkka upp hjá okkur en það er ekki að dvelja í langan tíma inni á svæðinu.“

Gaf óljósar skýringar um svefnstað

Gunnar segir ekki vitað nákvæmlega hvar í flugstöðinni konan hafðist við í þá viku sem hún dvaldi þar. „Það er óljóst hvar hún var og hún gaf sjálf óljósar skýringar. Það eru náttúrulega öryggisverðir á sífelldri um flugstöðina. Það má vera að það séu einhver skot þarna sem lítið ber á.“

Aðspurður segist hann ekki reikna með að konan hafi þrifið sig mikið, enda hafi hún ekki haft aðgang að öðru en salernisvöskum, en eins og fram hefur komið í fréttum uppgötvaðist að konan byggi í flugstöðinni þar sem hún kom daglega í verslun eina og keypti sér kók og banana.

Segir Gunnar að öryggisvörður hafi veitt konunni athygli, fundist hann hafa séð hana áður og farið að forvitnast. Hún hafi viðurkennt að hafa haft búsetu í Leifsstöð en gaf litlar skýringar á hegðun sinni. Segir Gunnar að konan hafi ekki virst í andlegu ójafnvægi og að hún hafi haft næg fjárráð til að halda áfram för sinni.

„Af því sem mér skilst virkaði hún þokkalega eðlileg. Það var ekki annað að sjá en að hún væri í góðu ásigkomulagi,“ segir Gunnar en bætir því hugsandi við að þessi sérstaka hegðun gefi engu að síður tilefni til vangaveltna um hvað búi undir niðri.

Flugstöðin er ekki gistiheimili

Lögregla sá ekki ástæðu til að halda konunni hér á landi en hún þvertók fyrir að snúa aftur til Bandaríkjanna. Íbúar utan Schengen svæðisins mega ekki dveljast í meira en 90 daga innan þess án tilskyldra leyfa og hafði konan fullnýtt þá daga. Fór því svo að hún bókaði miða til Edinborgar og yfirgaf landið.

Þá er það hinsvegar stóra spurningin. Sé Shengen svæðið ekki í myndinni, hversu lengi má þá dveljast löglega í flugstöðinni?

„Flugstöðin er ekki gistiheimili,“ svarar Gunnar, örlítið kíminn en þó fúlasta alvara, blaðamanni til nokkurra vonbrigða. „Öryggisverðir sjá um það ef fólk ætlar sér að sofa þarna yfir nótt eða nætur.“

Viktor Navorski (Tom Hanks) komst í hann krappan í The …
Viktor Navorski (Tom Hanks) komst í hann krappan í The Terminal þegar vegabréf hans varð ógilt í augum Bandaríkjanna vegna byltingar í heimalandi hans, Krakozhia.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert