Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé er fyrsta konan til að skrá sig í lengstu vegalengd Mt. Esja Ultra, ofurhlaups á Esjunni, sem verður laugardaginn 20. júní næstkomandi.
„Síðan Esjuhlaupið byrjaði hefur mig alltaf dreymt um að taka þátt í tíu ferða hlaupinu, sem nú verður ellefu ferðir, því að hlaupið er mikil áskorun og ég er stöðugt að skora á sjálfa mig að gera eitthvað sem ég hef ekki gert áður,“ segir Halldóra. „Það er líka enn meiri áskorun að engin kona hefur gert þetta.“
Þó að Halldóra hafi hlaupið 23 sinnum á Esjuna á undanförnum tveimur mánuðum og æfi fyrir þríþrautina Ironman í Flórída í haust, þar sem keppendur synda 3,8 km, hjóla 180 km og hlaupa maraþon, byrjaði hún ekki markvisst að hlaupa fyrr en 2011.
„Ég hljóp reyndar og gekk hálft maraþon í Glitnis-Reykjavíkurmaraþoninu 2008, því þá var ég nýbyrjuð að vinna í bankanum og mikið var lagt upp úr því að allir starfsmenn væru með,“ segir hún. „Ég fór leiðina á rúmum þremur tímum enda í engu formi. Þá ákvað ég að gera eitthvað í mínum málum, byrjaði að taka á mataræðinu, skráði mig síðan á hlaupanámskeið og hljóp Laugavegsmaraþonið 2011. Eftir það varð ekki aftur snúið.“
Um þetta leyti kynntist hún hjónunum Bryndísi Baldursdóttur og Ásgeiri Elíassyni. „Bibba er fyrsta íslenska konan til að taka þátt í Ironman, frábær og hvetjandi, og ég skráði mig með þeim í Ironman í Cozumel í Mexíkó 2012. Þá átti ég ekki reiðhjól og kunni ekki að synda skriðsund en var komin með æfingu í að hlaupa. Í kjölfarið fór ég í Ironman í Frankfurt 2013 og Ironman í Kalmar 2014, en markmiðið einhvern daginn er að komast á heimsmeistaramótið í Ironman í Kona á Hawaii.“ Halldóra var í fyrsta hópnum, sem lauk keppni í fjórþrautinni Landvættinum, þar sem keppt er í einni þraut í hverjum landsfjórðungi. „Ég hafði aldrei stigið á gönguskíði, fékk þau í jólagjöf, byrjaði að skíða og fór svo í 50 kílómetra Fossavatnsgöngu í maí 2013.“
Halldóra hefur skrifað upp lista með markmiðum og eitt þeirra var að komast í Félag 100 km hlaupara á Íslandi. „Ég hljóp 100 kílómetra á Spáni í haust sem leið og var þar með formlega tekin inn í klúbbinn,“ segir hún. „Ég verð 46 ára 20. júní og þá finnst mér tilvalið að fara 11 Esjur á afmælisdaginn,“ segir ofurkonan. „Ég hef 18 tíma til þess að ljúka hlaupinu. Aðalatriðið er að koma flottust, skemmtilegust og glöðust í mark.“
Nánast engin endurtekning er í þessu náttúruhlaupi. „Þetta er ævintýrahlaup,“ segir Elísabet. Samtals hafa um 100 manns tekið þátt í öllum vegalengdum Esjuhlaupsins ár hvert og þar af hafa fimm karlar farið lengstu vegalengdina, 10 ferðir fram og til baka fyrstu tvö árin og 11 ferðir í fyrra. Nú bætist maraþonið við og gerir Elísabet ráð fyrir 20 keppendum í því. Keppnin í erfiðasta hlaupinu hefst á miðnætti, ræst verður í maraþonið kl. átta um morguninn og á hádegi í tveggja ferða hlaupið, en skráning stendur yfir (www.mtesjaultra.is). Brautarskoðun á maraþonleiðinni verður haldin frá Esjustofu kl. 20 næstkomandi sunnudag.