Bændasamtök Íslands og Landssamband kúabænda telja að breytingar sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands leggur til að verði gerðar á opinberum stuðningi við mjólkurframleiðslu muni kollvarpa núverandi fyrirkomulagi á framleiðslunni.
Þau gagnrýna jafnframt að skýrsluhöfundar gefi sér að eftirgjöf í tollum á landbúnaðarafurðum skili sér í lægra verði til neytenda. Nýleg dæmi þar sem hið opinbera hefur lækkað álögur á vöruflokkum sýni að það sé ekki gefið að verð á þeim út úr búð lækki samsvarandi.
Þvert á móti komi fram í nýlegum verðlagskönnunum ASÍ að verð á þessum vöruflokkum hækkaði eða stóð í stað eftir að dregið var úr álögum. Aukin skilvirkni í framleiðslu mjólkurafurða hafi aftur á móti skilað sér í lækkuðu verði til neytenda.
Hagfræðistofnun leggur til í skýrslu sinni að tollar á mjólkurafurðum verði lækkaðir, svo að framleiðslu grannlandanna verði samkeppnisfær við íslenskar mjólkurafurðir, og í framhaldi af því er lagt til að opinbert heildsöluverð á mjólkurvörum verði lagt af.
Landssamband kúabænda bendir á að í skýrslunni komi skýrt fram að opinberir styrkir til landbúnaðarframleiðslu hér á landi hafi lækkað sem hlutfall af landsframleiðslu á undanförnum árum. Þrátt fyrir þetta hafi náðst árangur í að ná niður verði á helstu mjólkurvörum og auka framleiðslu.
Frétt mbl.is: Tollar af mjólkurvörum lækki