Rannsókn eldvoðans lokið

Ljósmynd/Sigmundur Sigurgeirsson

„Það upplýstist þarna strax um kvöldið að tveir 9 ára strákar höfðu verið að fikta við kveikjara. Þeir höfðu fyrr um daginn verið að fikta við að kveikja í einhverju pappadóti á víðavangi. Leikurinn hjá þeim barst síðan inn á þessa lóð og þeir voru að reyna að kveikja í einhverju spýtnarusli sem þar var,“ segir Grímur Hergeirsson rannsóknarlögreglumaður á Selfossi en rannsókn á upptökum eldsvoðans er nú lokið.

„Þeir segjast þá hafa fundið brúsa með einhverjum vökva í og skvett því þarna eitthvað um kring. Líkur má leiða að því að það hafi verið eitthvað eldfimt og hafi orðið til þess að eldurinn magnaðist upp.“

Maður sá til strákanna þegar þeir voru að fikta við spýturnar inni á lóðinni og var þá eldur kominn upp. „Hann hrópaði þá á strákana en þeir hlupu í burtu. Maðurinn gerði þá slökkviliðinu viðvart um eldinn,“ segir Grímur.

Þegar strákarnir komu heim til sín sögðu þeir foreldrum sínum frá því sem hafði gerst. „Þeir voru miður sín og mjög hræddir. Þetta var bara fikt tveggja mjög ungra stráka,“ segir Grímur og bætir við að foreldrar þeirra hafi svo haft samband við lögregluna um kvöldið.

„Barnaverndarnefnd Árborgar kom með okkur og við tókum viðtöl við þessa stráka og þetta gengur allt saman upp þannig að við teljum að málsatvikin liggi nú fyrir og er rannsókn því lokið. Það er gott að þetta upplýstist strax og strákarnir sögðu frá þessu. Málið er því ekkert sérstaklega flókið,“ segir Grímur en bætir við að betur hafi farið en á horfðist. „Þetta var gríðarlegt bál og það var til happs að ekki var meira rok. Annars hefðu næstu hús einnig verið í hættu.“

Segir Grímur að barnaverndarnefnd muni nú fylgja strákunum eftir og aðstoða eftir þörfum við að vinna úr þessu. „Þetta er auðvitað svolítið sjokk fyrir unga stráka að lenda í svona vandræðum en barnavernd og foreldrarnir munu fylgja þessu eftir.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert