Ríkissaksóknari hefur ákært fimm pilta á aldrinum 17 til 19 ára sem grunaðir eru um að hafa nauðgað 16 ára stúlku í samkvæmi í Breiðholti í maí á síðasta ári.
Málið hefur verið á borði ríkissaksóknara síðan í júní á síðasta ári þegar lögregla lauk rannsókn á málinu, en piltarnir sættu gæsluvarðhaldi um tíma.
Stúlkan lagði fram kæru á hendur piltunum þann 7. maí á síðasta ári. Piltarnir voru handteknir samdægurs og sátu í gæsluvarðhaldi í eina viku.
Rannsókn málsins var umfangsmikil, m.a. var lögð fram myndbandsupptaka sem tekin var á síma eins piltanna. Þá voru teknar skýrslur af fjölda fólks, en hópnauðgunin mun hafa átt sér stað í samkvæmi í Breiðholti.
Piltarnir hafa allir gengist við því að hafa haft samfarir við stúlkuna, en segjast hafa talið að hún væri því samþykk. Piltunum ber þó ekki saman um atburðinn og atburðarás honum tengda.