Um það bil þrisvar sinnum fleiri nýnemar hafa sótt um skólavist í Kvennaskólanum í Reykjavík í haust en pláss er fyrir í skólanum. Frestur 10. bekkinga til að sækja um framhaldsskóla rann út á miðnætti í gær. Flestir sóttu um að komast í Verslunarskóla Íslands.
Fjórir framhaldsskólar fengu umsóknir frá fleiri nemendum en þeir geta tekið við, Verslunarskólinn, Kvennaskólinn, Menntaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn við Hamrahlíð. Umsóknirnar voru tvöfalt fleiri en plássin í þeim öllum. Hlutfallslega flestar umsóknirnar bárust Kvennaskólanum þar sem rétt um þrisvar sinnum fleiri sóttu um skólavist en geta fengið inni.
Alls sóttu 4.047 tíundubekkingar um framhaldsskólavist og eru skólarnir nú byrjaðir að fara yfir umsóknirnar. Reiknað er með að allir verði komnir með skólavist fyrir 25. júní. Samkvæmt upplýsingum Námsmatsstofnunar er mikið álag á starfsfólk framhaldsskólana þessa dagana og því er þeim tilmælum beint til umsækjenda og forráðamanna þeirra að sýna biðlund á meðan farið er yfir umsóknirnar og gefa skólunum næði til að ganga frá þeim.
Námsmatsstofnun sér um að útvega þeim sem ekki fá inni í þeim skólum sem þeir sóttu um skólavist. Í fyrra voru rúmlega 40 af rúmlega 4.100 nemendum sem ekki fengu inni í þeim skólum sem þeir sóttu um. í töflunni hér fyrir neðan má sjá nánar fjölda umsókna í skólunum fjórum þar sem fleiri sóttu um en komast munu að.