„Í eðli sínu er heimilisofbeldi og ofbeldi milli nákominna ólíkt ofbeldi sem manneskja er beitt af einhverjum ókunnugum. Þó það geti verið sami verknaður er auðveldara að kæra einhvern sem þú þekkir ekki en að kæra einhvern sem er inni á heimili þínu og þér þykir jafnvel vænt um eða þú óttast.“
Þetta segir rithöfundurinn og tónlistarkonan Bergljót Arnalds sem stendur í samstarfi við Kvennaathvarfið fyrir undirskrifastöfnun fyrir þá sem vilja skora á stjórnvöld til að setja sérlög um heimilisofbeldi.
Í dag gera íslensk lög ekki greinarmun á heimilisofbeldi og ofbeldi af hálfu ókunnugra og segir Bergljót mikilvægt að breyta því, enda sé ekki réttlátt að sami fyrningartími gildi fyrir brot sem framin eru í svo ólíkum aðstæðum. Þolandi heimilisofbeldis geti veigrað sér við að slíta sambandi við gerandann t.a.m. vegna ótta við að missa börn, vegna hótanna eða vegna þess að viðkomandi hefur verið markvisst brotin niður.
„Ef einhverjum er misþyrmt úti á götu og hlýtur ekki beinbrot hefur viðkomandi tvö ár til að kæra það. Ef einhverjum er misþyrmt í sambandi en getur ekki farið úr sambandinu getur áverkavottorð verið orðið úrelt þegar þar að kemur.“
Bergljót segir málefnið standa sér nærri enda hafi hún sjálf þurft að finna fyrir því að lögin bregðist þolendum. Nefnir hún að þó svo að heimilisofbeldi sé yfirleitt ofbeldi þar sem sami aðili beitir sama aðila ofbeldi oftar en einu sinni rannsaki lögreglan hvert tilviki fyrir sig sérstaklega sem sjálfstætt mál. Því þurfi að sanna hvert mál fyrir sig.
„Í mínu tilviki þótti eitt af þremur brotum líklegt til sakfellingar þar sem ég var með áverkavottorð og tilkynningu til lögreglu og meira að segja játningu mannsins á tölvupósti. Það þótti fyrnt um þrjá mánuði en tvö brot sem voru ekki fyrnd þóttu ekki hafa nægilega sterka sönnunarstöðu þrátt fyrir að ég væri með áverkavottorð fyrir annað tilvikið og að hann vísi í hitt tilvikið í tölvupósti,“ segir Bergljót. „Af því að litið er á þetta allt sem sérstök tilvik en ekki sem eina heild.“
Bergljót segist orðið þekkja vel til málaflokksins og hafa rætt við marga sem við hann starfa sem allir séu sammála um að lögunum sé ábótavant. Hún segir umræðu undanfarinna daga um kynferðisofbeldi undir merkjum Beauty tips jákvæða og að hún vonist til að hún gefi verkefninu meðbyr.
„Ég vona að fólk líti ekki á þetta sem bara eitthvað sem konur þurfa að taka á,“ bætir hún við. „Karlmenn verða líka fyrir ofbeldi, bæði heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi. Það er mikill kraftur núna í þessum konum og ég vona virkilega að við munum öll starfa saman að bættum heimi og að sem flestir skrifi undir áskorunina.“